Undir íslömskum yfirráðum

Hindúatrú / Saga hindúatrúar / Undir íslömskum yfirráðum

Sækja pdf-skjal

 

Undir íslömskum yfirráðum Fyrir 1200 árum tók íslamstrú að berast til Norður-Indlands með kaupmönnum og hermönnum. Áhrif múslima í landinu jukust smátt og smátt og veldi þeirra náði loks hámarki fyrir u.þ.b. 400 árum síðan, undir stjórn mógúlska keisaraveldisins sem stjórnuðu nánast öllum Indlandsskaganum. Þrátt fyrir að mikill munur sé á hindúum og múslimum bæði hvað varðar átrúnað og samfélagsgerð þá náðu þeir lengst af að lifa saman í friði.

Akbar hinn mikli, sem var líklega áhrifamesti keisari mógúlanna, sýndi í fyrstu lítið umburðarlyndi gagnvart öðrum trúarbrögðum en íslam. Fljótlega varð hann hinsvegar fyrir áhrifum nokkurra vinsælla gúrúa sem hvöttu til friðar og samstillingar milli trúarbragða og viðhorf hans breyttist það mikið að Akbar varð í reynd þekktur fyrir umburðarlyndi sitt og áhuga á trúmálum. Margir af ráðherrum hans voru hindúar og hann fjármagnaði ekki aðeins byggingu á moskum fyrir múslima heldur einnig musteri fyrir hindúa og kirkjur fyrir kristna. Hann hélt einnig fjölda ráðstefna um trúarbrögð þar sem múslimar, kristnir, hindúar, shíkar, janistar, gyðingar og fleiri rökræddu trúmál sem jafningjar.

Langafabarn hans, Aurangzeb keisari var hinsvegar ekki svona frjálslyndur. Hann kom á mjög ströngum lögum og þrengdi verulega að rétti hindúa í landinu. Auk þess lét hann eyðileggja fjölmörg musteri hindúa og bannaði alla tónlist, bæði hjá hindúum og múslimum. Með þessum aðgerðum voru hindúar útilokaðir frá opinberu trúarlífi. Þeir fóru því að iðka trú sína meira í einrúmi og inn á heimilum í staðin fyrir í musterum og opinberum stöðum. Er það enn áberandi einkenni hindúatrúar. Eftir dauða Aurangzeb fór að halla verulega undan veldi mógúlanna og það leið fljótlega undir lok.