Hindúatrú / Saga hindúatrúar / Undir yfirráðum Breta
 
Á tímum íslamska mógúlaveldisins fóru evrópskar siglingaþjóðir Bretar, Portúgalar, Hollendingar og Frakkar að hafa mikil viðskipti við Indverja og settu upp stórar verslunarmiðstöðvar á Indlandi. Þegar völd mógúlanna minnkuðu fóru þessi lönd að krefjast yfirráða yfir Indlandi sem endaði með því að stór hluti Indlandsskaga var sameinaður undir breskri stjórn fyrir u.þ.b. 250 árum.
Til að byrja með skiptu Bretar sér ekki mikið af indverskri menningu og sett voru lög sem gættu þess að hindúar fengju að iðka trú sína í friði. Fljótlega fengu kristnir trúboðar hinsvegar leyfi til að ferðast um Indland og boða trú sína. Samhliða þeim komu margir fræðimenn sem vildu kynna sér land og siði. Menning hindúa hneykslaði marga þeirra og vildu þeir því kristna þá og innleiða vestræn gildi. Þetta hafði gífurleg áhrif á stöðu hindútrúar. Margir hindúar tóku kristni en stór hluti var ósáttur við þessar tilraunir Breta til að breyta menningu þeirra. Sumir voru þó jákvæðir fyrir breytingum þó þeir vildu ekki gefa upp grunngildi sín. Því fór af stað mikil umbótahreyfing meðal hindúa sem hvöttu til aðlögunar og breytinga og margir spekingar þessa tíma höfðu mikil áhrif á hvernig hindúatrú er í nútímanum.
Tveir þessara spekinga voru þeir Ram Mohan Roy og Dayananda Sarasvati en þeir vildu losa hindúatrú við allt það sem álitið var hjátrú.
Ram Mohan Roy boðaði hindúatrú sem trú siðferðis og skynsemi. Hann vildi afnema hið alræmda stéttakerfi, bæta réttindi kvenna og auka menntun. Fyrir þessu barðist hann í gegnum Brahmo Samaj söfnuðinn sem hafði mikil pólítísk áhrif á Indlandi.
Dayananda Sarasvati vildi afnema dýrkun á persónulegum guðum s.s. Vishnu og Gyðjunnar en leggja þess í stað áherslu á hinn eilífa, almáttuga og ópersónulega guð, Brahman. Annar áhrifamikill spekingur var Ramkrishna Paramhansa sem lýsti því yfir að öll trúarbrögð væru byggð á sama grunni og leiddu því öll til þess sama, Guðs. Hann hvatti því til umburðarlyndis og sameiningar meðal trúarbragða en barðist auk þess fyrir afnámi stéttakerfisins. Einn nemandi hans Vivekananda þróaði hugmyndir hans frekar. Vivekananda hafði mikil áhrif á hugmyndir þeirra sem börðust fyrir sjálfstæði Indlands auk þess sem hann ferðaðist mikið um Evrópu og Bandaríkin þar sem hann flutti boðskap sinn og varð því til þess að áhrif hindúatrúar breiddust til Vesturlanda.
Tíminn sem Indverjar voru undir yfirráðum Breta var þeim mjög erfiður. Bretar settu á háa skatta auk þess sem þeir fluttu meirihluta auðlinda landsins úr landi. Íbúar Indlands máttu því margir þola mikla fátækt og hungur og undir stjórn Breta upplifðu Indverjar nokkrar af mestu hungursneyðum sem sögur fara af og samanlagt létust fleiri tugir milljóna úr hungri.
Þessar aðstæður urðu til þess að auka á þjóðerniskennd Indverja og raddir um sjálfstætt Indland urðu sífellt hærri.