Hindúatrú í dag

Hindúatrú / Saga hindúatrúar / Hindúatrú í dag

Sækja pdf-skjal

 

Hindúatrú í dag Hindúatrú hefur haldið sessi á Indlandi sem ríkjandi átrúnaður en um 80% Indverja eru hindúar. Áætlað er að yfir 944 milljónir hindúa búi í heiminum. Langflestir, 930 milljónir eða 98,5% búa í Suður-Asíu.

Vesturlönd kynntust hindúatrú ekki fyrr en Indland lenti undir yfirráðum Breta en þá fóru margir fræðimenn til Indlands til að rannsaka siði þar og menningu. Það var hinsvegar ekki fyrr en eftir að Indverjar fengu sjálfstæði að hindúatrú breiddist út sem átrúnaður. Mesta útbreiðslan er vegna þess hve margir Indverjar hafa flutt til Vesturlanda, einkum Bretlands og Bandaríkjanna.

Á sjöunda og áttunda ártug síðustu aldar varð mikið rót á Vesturlöndum þar sem ungt fólk reis upp gegn ríkjandi viðhorfum og menningu foreldra sinna. Í kjölfar þess spruttu fram margar svokallaðar nýaldarhreyfingar sem stundum hafa verið nefndar ný-hindúismi þar sem heimspeki þeirra byggir að mestu á hindúatrú og Jóga. Á sama tíma varð Hare Krishna hreyfingin stofnuð þar sem guðinn Krishna er dýrkaður sem hinn æðsti guð og mikil áhersla er lögð á friðarboðskap og mannúðarstarf. Hreyfingin naut strax mikilla vinsælda og athygli einkum eftir að George Harrison einn meðlimur hinnar vinsælu hljómsveitar Bítlanna snerist til trúarinnar og samdi nokkur lög með trúarlegu ívafi sem urðu vinsæl.

Virk samfélög hindúa er að finna um allan heim og áhrifa hindúatrúar gætir víða s.s. í gegnum vinsældir mismunandi jógaþjálfunar og innhverfrar íhugunar eða hugleiðslu.