Gandhi og sjálfstæðisbarátta Indlands

Hindúatrú / Saga hindúatrúar / Gandhi og sjálfstæðisbarátta Indlands

Sækja pdf-skjal

 

Gandhi og sjálfstæðisbarátta Indlands Þekktasti hindúi og Indverji síðari tíma er líklega Mahatma Gandhi sem var helgur maður og mikill mannréttindafrömuður. Gandhi var algjörlega á móti öllu ofbeldi en hann taldi hinsvegar að almenningur ætti hiklaust að stunda friðsamlega, borgaralega óhlýðni ef brotið væri á rétt hans. Gandhi leiddi þjóðarátak til að berjast gegn fátækt, bæta réttindi kvenna, og auka samlyndi milli trúarbragða. Hann barðist einnig fyrir stöðu stéttleysingja og átti stóran þátt í að stéttaskiptingin í landinu var bönnuð árið 1950. Hans helsta baráttumál var hinsvegar sjálfstæði Indlands undan yfirráðum Breta. Hann stjórnaði mörgum mótmælaaðgerðum og sat samtals í nokkur ár í fangelsum vegna aðgerða sinna.

Frægasta mótmælaaðgerð Gandhi var Saltgangan þar sem hann leiddi um 400 km göngu til að mótmæla sérstökum skatti sem Bretar höfðu sett á salt. Salt er nauðsynjavara í heitu landi, því það kemur í veg fyrir að fólk svitni og missi óþarfa vökva. Skatturinn og sú verðhækkun sem honum fylgdi á salti var því mörgum Indverjum þungur baggi. Gandhi hóf gönguna með 78 manna gönguhóp en smátt og smátt bættist í hópinn og á endanum taldi hann 50 þúsund manns. Mótmælin urðu til þess að milljónir manna fóru að framleiða sitt eigið salt eða kaupa ólöglegt salt án skatta.

í 25 ár beittu Gandhi og fylgismenn hans friðsömum mótmælaaðferðum til að berjast fyrir sjálfstæði landsins og hann lagði óumdeilanlega stóran skerf til sjálfstæðisbaráttunnar en árið 1947 fékk Indland sjálfstæði. Eftir það ákváðu helstu leiðtogar landsins að skipta því í tvennt, Indland og Pakistan. Hindúar og shíkar áttu að búa í Indlandi en múslimar í Pakistan. Fólk var flutt nauðugt eða viljugt og út brustu blóðugir bardagar þar sem talið er að allt að milljón manns hafi látist.

Aðeins ári eftir sjálfstæðið var Gandhi drepinn af fyrrum fylgismanni sínum sem kenndi Gandhi um blóðbaðið í kringum fólksflutningana.

Fæðingardagur Gandhi 2. október er opinber hátíðisdagur á Indlandi og einnig alþjóðlegur dagur án ofbeldis.