Hindúatrú / Kennisetningar / Endurholdgun og frelsun
 
Þegar sálin fæðist aftur í nýjum líkama þá er það kallað endurholdgun eða samsara. Hindúar trúa því að lífið sé endalaus hringur fæðingar og dauða og hver sál fæðist aftur og aftur þar til hún frelsast undan þessari hringrás. Sama sál getur fæðst sem manneskja, dýr eða guðleg vera og fer það eftir því hvernig lífi sálin lifði í sínu fyrra lífi hvernig hennar næsta líf verður. Helsta markmið hindúa er að öðlast frelsun, moksha, og losna úr hinum endalausa hring endurfæðinga þannig að sálin fái loks að sameinast alheimssálinni Brahman.
Talið er að það séu þrjár meginleiðir til að öðlast moksha:
- Leið tilbeiðslunnar. Þeir sem velja þessa leið leggja áherslu á að tilbiðja og lofsyngja Guð, í hvaða formi sem þeir kjósa, og þeir treysta því að Guð hjálpi þeim að feta leiðina til moksha.
- Leið góðra verka. Þeir sem fara þessa leið einbeita sér að því að vera góðir og sinna skyldum sínum í von um að öðlast moksha.
- Leið þekkingarinnar. Þessi leið er mjög erfið og því ekki jafn algeng og hinar tvær. Þeir sem velja hana trúa því að með því að lesa og íhuga helgiritin undir leiðsögn gúrús geti þeir öðlast æðri skilning á lífinu og alheiminum og geti þá með visku sinni og þekkingu öðlast frelsun.