Tilbeiðsla

Hindúatrú / Siðir / Tilbeiðsla

Sækja pdf-skjal

 

Tilbeiðsla Puja

Stór hluti hindúa tilbiður einn eða fleiri guði. Það er mjög mismunandi hvaða guði þeir kjósa að tilbiðja en oft fer það eftir bakgrunni fjölskyldunnar eða persónulegum áherslum. Hindúar tilbiðja guði sína yfirleitt í einrúmi eða með ástvinum sínum frekar en í stórum hópum. Flestir eru með helgiskrín heima hjá sér. Helgiskrínið getur verið heilt herbergi, lítið altari eða einfaldlega mynd eða stytta af uppáhaldsguðinum.

Við tilbeiðsluna fara hindúar með bænir og færa líkönum guðanna vatn, ávexti, blóm og reykelsi. Þessi athöfn er kölluð puja. Á tilbeiðslualtarinu eru oft hafðir hlutir sem höfða til allra skilningarvitanna fimm; þau eru sjón, heyrn, lykt, bragð og snerting. Yantra eða líkan af alheiminum fyrir sjón, bjalla fyrir heyrn, reykelsi fyrir lykt, ávextir fyrir bragð og bænaband fyrir snertingu. Þessi atriði hafa þannig áhrif á allan líkamann og draga mann að fullu inn í tilbeiðsluna. Við tilbeiðslu nota einnig margir hindúar svokallaðan helgan þráð sem þeir fá við manndómsvígslu sína og ber að gæta ævilangt.

Musteri og brahmínar

Það eru engar strangar reglur um hvenær hindúar eiga að fara í musterin. Margir fara þangað á sérstökum dögum og hátíðum en heimsækja musterið þess á milli ef þá langar til. Mörg musteri eru tileinkuð aðeins einum ákveðnum guði eða gyðju. Inni er yfirleitt stytta af viðkomandi sem kallast murti. Þegar hindúar tilbiðja ganga þeir réttsælis í kringum skrínið. Með því að halda beinu augnsambandi við styttuna trúa þeir því að þeir geti náð sambandi við guðinn og beðið hann um andlega leiðsögn eða sérstakar bænir. Í hverju musteri er prestur sem kallast brahmíni. Hann tekur við fórnum, blómum og ávöxtum, frá almenningi og kemur þeim fyrir á altarinu svo guðinn geti blessað þær. Síðar fær fólkið aftur gjafirnar svo það geti tekið blessunina með sér heim. Prestarnir blessa stundum gestina með því að mála sérstakt merki á enni þeirra sem kallast tilak.

Allir hindúar mega lesa bænir og möntrur en einungis prestarnir, brahmínarnir, mega fara með Vedurnar. Tilbeiðsluathafnir eða hátíðir sem krefjast þess að Vedurnar séu lesnar fara því alltaf fram í musterum.

Pílagrímsferðir

Pílagrímsferðir eru mikilvægur hluti hindúatrúar en þeir líta svo á að það sé leið til að sjá Guð og láta Guð sjá þá. Vinsælir pílagrímsstaðir eru ár, fjöll og musteri en það eru fjölmargir helgir staðir á Indlandi sem guðirnir eiga að hafa búið á eða tengjast á einn eða annan hátt.

Þekktasta pílagrímshátíðin er Kumbh Mela sem er haldin á 12 ára fresti við ána Ganges sem er helgasta á hindúa.