Fæðing

Hindúatrú / Siðir / Fæðing

Sækja pdf-skjal

 

Fæðing Hindúar hafa marga siði tengda velferð og þroska barna. Þegar kona hefur t.d. gengið með barn í þrjá mánuði er sérstök athöfn til að blessa fóstrið og gæta þess að það þroskist eðlilega. Þegar móðirin er komin sjö mánuði á leið er haldin veisla þar sem beðið er fyrir henni og ófædda barninu.

Þegar barn fæðist er það boðið velkomið í fjölskylduna með því að setja örlítið hunang í munn þess og hvísla hinu helga orði aum í eyra þess. Tíu dögum síðar er barninu gefið nafn. Elsta konan í fjölskyldunni tilkynnir hinum hvað barnið á að heita og faðir barnsins hvíslar nafninu í eyra þess. Á sama tíma er algengt að stjörnukort barnsins sé búið til. Stjörnukortið sýnir stöðu himintungla þegar barnið fæddist en hindúar trúa því að stjörnurnar hafi áhrif á líf okkar og persónuleika. Kortið er því notað síðar í lífinu t.d. til að reikna út hvaða dag er best að gifta sig.

Auk þessara athafna eru sérstakar athafnir þegar barnið í fyrsta sinn fer út, borðar fast fæði, hár þess er klippt og það fær göt í eyrun.