Andlát

Hindúatrú / Siðir / Andlát

Sækja pdf-skjal

 

Andlát Þar sem hindúar trúa á endurfæðingu þá líta þeir svo á að þeir þurfi ekki á líkama sínum að halda eftir að þeir deyja. Þar af leiðandi eru líkamar látinna hindúa yfirleitt brenndir eins fljótt og hægt er. Fyrir brennsluna er líkið þvegið og klætt í ný og hrein föt. Hár og skegg er einnig snyrt. Á Indlandi er líkið lagt á stóran bálköst og nánasti ættinginn, yfirleitt elsti sonur þess látna, kveikir á honum. Eftir brennuna er öskunni safnað saman og sökkt í einhverja á, helst hina heilögu Ganges. Eftir útförina fara allir í fjölskyldunni í hreinsunarbað. Nánustu ættingjar fara auk þess í einangrun í nokkra daga en þeir eru taldir vera óhreinir á þessum tíma og mega ekki fara í musteri, borða sætindi og fleira. Eftir að hreinsunartímanum lýkur er haldin minningarathöfn þar sem ættingjarnir hittast, borða saman og gefa oft gjafir til fátækra eða góðgerðarsamtaka. Til að milda anda dauðans eru honum færðar sérstakar rísbollur að fórn þannig að sál hins látna festist ekki í þessum heimi sem draugur heldur komist yfir í heim hinna dauðu.

Margir hindúar trúa því að ef þeir deyi í borginni Varanasi, sem er við bakka árinnar Ganges, og ösku þeirra sé dreift yfir Ganges hafi þeir öðlast besta mögulegan dauðdaga sem hægt er og það auki líkurnar á að sál þeirra öðlist frelsun frá endurfæðingu, moksha. Ef hindúi getur ekki dáið við Ganges er honum stundum gefið vatn úr ánni að drekka á dánarbeði sínu í trú um að það færi hann nær moksha.