Fyrir flesta hindúa er hjónaband og fjölskyldulíf mikilvægasti hluti lífsins og þeir líta svo á að hjónaband sé ævilangur félagsskapur tveggja einstaklinga sem eiga vel saman.
Brúðkaupsathöfnin getur verið mismunandi milli staða en yfirleitt er haldin mikil veisla sem getur staðið allt upp í 12 daga. Samkvæmt hefðinni er brúðurin klædd í rauðan, hvítan og gylltan sari, hefðbundinn indverskan kvenbúning, sem brúðguminn færir henni að gjöf. Hann er sjálfur klæddur í hefðbundinn fatnað, hvíta mussu með gylltum skreytingum og annaðhvort buxur eða sarong sem er sítt pils. Brúðguminn er stundum með sérstakan höfuðbúnað sem nefnist safa og hálsmen sem kallast kantha.
Við hjónavígsluna sjálfa strengir parið hvort öðru heit fyrir framan heilagan eld og lofar því að standa ætíð saman og vera hvort öðru trú. Þau ganga sjö skref í kringum eldinn þar sem hvert skref táknar mikilvæga þætti í lífi þeirra saman: fæði, styrk, velgengni, visku, afkomendur, heilsu og vináttu. Að því loknu er sari brúðarinnar bundinn við föt brúðgumans til að tákna einingu þeirra og hjónabandið er blessað af prestum og öldungum.
Fjölskyldulífið er mjög mikilvægt fyrir flesta hindúa og stórfjölskyldan er í góðu sambandi og býr oft saman eða í nálægð. Mikil áhersla er lögð á að sýna þeim sem eldri eru virðingu. Þegar hindúar verða gamlir og hætta að vinna sjá börnin þeirra fyrir þeim og búa með þeim. Í staðin líta afinn og amman eftir barnabörnunum og fræða þau.