Helgirit

Gyðingdómur / Kennisetningar og reglur / Helgirit

Sækja pdf-skjal

 

Ester Tenakh er aðalhelgirit gyðinga en það skiptist í þrennt: Tóra, Nevi´im og Ketuvim. Þrískiptingin endurspeglar í hvaða röð rit hennar urðu helgirit og einnig innra vægi textanna í trúarhefð gyðinga. Í kristni er Tenakh yfirleitt kallað Gamla testamentið.

Tóra eða lögmálið er helsti trúartexti gyðingdómsins og er heilög ritning gyðinga. Tóra eru Mósebækurnar fimm og nefnast einnig fimmbókaritið. Þær innihalda sköpunarsöguna, sögur um ættfeður Ísraelsmanna, ánauð þeirra í Egyptalandi og frelsun, boðorðin á Sínaí-fjalli og förina yfir eyðimörkina áður en þeir komu til fyrirheitna landsins. Tóra-bókroðlur eru varðveittar inni í skáp er nefnist örkin í sýnagógunni. Þegar gyðingar biðjast fyrir í sýnagógunni snúa þeir sér í átt að örkinni enda á hún alltaf að snúa í átt að Jerúsalem.

Nevi’im eða spámennirnir er trúartexti sem inniheldur sögur og spádómsrit.

Ketuvim eru einnig nefnd spekirit eða ritningarnar. Hér er um að ræða ellefu bækur með ljóðum, spádómum, speki og sögnum.

Halakhah

Halakhah er rit sem inniheldur siðaboðskap gyðinga og auk ýmsar hefðir sem byggjast á boðorðunum. Boðorðin tíu sem opinberuðust Móse á Sínaí-fjalli, 613 boðorð sem voru unnin af rabbínum á annarri til sjöundu aldar og ýmsar hefðir sem mynduðust á fyrstu öldum Ísraelsríkis er að finna í Halakhah. Þar eru upplýsingar um klæðnað, hvað megi borða og hvernig hægt sé að hjálpa fátækum. Því hefur Halakhah ekki eingöngu trúarlegt gildi heldur líka hversdagslegt gildi og er því undirstaða lífshátta og siða gyðinga. Með því að hlýða orðum Halakhah sýna menn guði þakklæti sitt, öðlast skilning á einkennum gyðingdómsins og færa guðdóminn inn í hversdaglífið.

Mishnah og Talmúd

Mishnah inniheldur munnlega lögmálið. Eftir að seinna musteri gyðinga var eyðilagt árið 70 e. Kr., og gyðingar tvístruðust, var farið að leggja meiri áherslu á að skrásetja sögu og trúarlíf gyðingdómsins. Umræður rabbína um hvernig trúarlegt og veraldlegt líf gyðinga gæti samlagast breyttum aðstæðum leiddu til þess að til urðu lög og siðaboð sem Ísraelsmenn gátu farið eftir. Það var þó ekki fyrr en árið 200 e. Kr að munnlega lögmálið var skráð í rit sem fékk nafnið Mishnah. Í Mishnah er fjallað um bæði trúarlegar og veraldlegar hliðar lífsins. Mishnah leiddi svo til mikilla rökræðna milli rabbína sem tjáðu skoðanir sínar hvort heldur að þeir voru í meirihluta eða minnihluta hópum gyðinga.  Þessum rökræðum var síðan safnað saman í rit sem nefnist Talmúd.

Talmúd er safn, ritað af rabbínum, sem inniheldur trúarhefðir gyðinga. Talmúd er talið hafa verið skrifað einhvers staðar á tímabilinu frá annarri til fimmtu aldar e. Kr. Sumir gyðingar vilja þó meina að þessi texti hafi einnig opinberast Móse en hafi borist á milli munnlega allt þar til hann hafi verið skrifaður niður. Þess vegna er Talmúd stundum kallað hið munnlega Tóra. Í Talmúd er textinn jafn heilagur og textinn í Biblíunni.

Siddur og Haggadah

Hvað varðar lífsmáta og trúarathafnir gyðinga þá eru tvö rit sem hafa mikla sérstöðu en það eru bænabækur sem nefnast Siddur og endursögn sem nefnist Haggadah.

Til eru margar gerðir af Siddur bæði til daglegs bænahalds og til að nota á Sabbatsdegi og trúarhátíðum. Siddur er í grunninn eins uppbyggð þó einhver munur sé á henni eftir hvaða stefnu gyðingar aðhyllast. Bænabókin um helgisiðaformið er þó allstaðar eins.

Haggadah segir frá brottför Ísraelsmanna frá Egyptalandi. Við málsverð gyðingafjölskyldunnar á páskum er frásögnin flutt og hún rifjuð upp kynslóð eftir kynslóð. Frásögnin er til þess að fræða börnin og á að halda athygli þeirra. Með þessu er verið að móta sjálfsmynd gyðinga.