Sáttmálinn á Sínaífjalli

Gyðingdómur / Forsaga gyðingdóms / Sáttmálinn á Sínaífjalli

Sækja pdf-skjal

 

Móses Guð fylgdi Ísraelsmönnum yfir eyðimörkina og sá til þess að þeir hefðu nægan mat. Þeir komu upp tjöldum í Sínaí-eyðimörkinni við rætur Sínaí-fjallsins. Móse fór upp á fjallstindinn og dvaldi þar í fjörtíu daga og fjörtíu nætur. Og Guð talaði til hans og sagði þessi orð:  

„Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín eða skepnur þínar, eða nokkur útlendingur, sem hjá þér er innan borgarhliða þinna, því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í þeim er, og hvíldist sjöunda daginn. Fyrir því blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann. Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér. Þú skalt ekki morð fremja. Þú skalt ekki drýgja hór. Þú skalt ekki stela. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á “(Biblían 1981:2M 20:2-17).

Orð Guðs voru rituð á tvær steintöflur og Móse hafði þær með sér þegar hann kom niður af fjallinu. En fólkið hafði gert sér gullkálf sem líkneski og var farið að tilbiðja gullkálfinn. Móse varð mjög reiður og braut báðar steintöflurnar. Guð sagði honum að koma aftur upp á fjallið til að fá nýjar steintöflur því hann var miskunnsamur og vildi gefa þeim annað tækifæri.

Orð Guðs sem rituð voru á steintöflurnar nefnast boðorðin tíu en sögur segja líka frá því að Móse hafi einnig fengið munnleg boðorð frá Guði. Í daglegu lífi sínu reyna gyðingar að fara eftir boðorðunum og hafa þau að leiðarljósi við öll sín verk. Einhver munur er á því hvernig boðorðunum er skipt niður og á það þó aðallega við um tvö fyrstu og síðustu tvö boðorðin.

Það má lesa meira um boðorðin tíu og annan siðaboðskap í gyðingdómi í kaflanum Kennisetningar og reglur > Boðorð og siðaboðskapur.