Sköpunin

Gyðingdómur / Kennisetningar og reglur / Sköpunin

Sækja pdf-skjal

 

Ester Í Tenakh, hebresku Biblíunni, nánar til tekið í fyrstu Mósebók, er að finna frásagnir af upphafi heimsins og sköpun Guðs.

Samkvæmt henni er Guð skapari alls og þar segir að í upphafi skapaði Guð himin og jörð. En jörðin var tóm og myrkur yfir öllu. Þá sagði Guð: Verði ljós, og það varð ljós. Honum fannst ljósið gott og kallaði það dag en myrkrið nótt. Svo kom kvöld og síðan dagur. Það var hinn fyrsti dagur.

Guð skapaði himininn á öðrum degi. Á þriðja degi skapaði hann hafið og þurrlendi en einnig gróðurinn sem voru aldintré og sáðjurtir. Fjórði dagurinn rann upp og Guð skapaði stjörnurnar á himninum, sólina sem lýsti daginn og tunglið sem skein á nóttunni. Ljós þessi áttu að marka árstíðir, ár og daga.

Á fimmta degi fyllti hann vötnin af fiski, hvölum og öllu því sem í sjónum lifir en einnig fyllti hann himininn af syngjandi fuglum. Á sjötta degi skapaði Guð fénað, villidýr og skriðdýr en einnig skapaði hann manninn í sinni mynd. Hann skapaði karl og konu sem áttu að drottna yfir öllum dýrum og gróðri jarðarinnar.

Guð leit yfir allt sem hann hafði skapað og fannst það gott. Á sjöunda degi hvíldi Guð sig af þeim verkum sem hann hafði skapað og helgaði þann dag af öllum verkum.

Guð skapaði manninn af leir jarðarinnar og blés lífi í nasir hans en með því varð maðurinn lifandi sál. Guð ræktaði aldingarðinn Eden og í miðju hans óx skilningstréð. Guð lét manninn í Eden svo hann gæti gætt hans og ræktað. Guð sagði manninum að hann mætti eta af öllum trjánum nema skilningstrénu því ef hann gerði það mundi hann deyja. En Guð vildi ekki að maðurinn væri einn og vildi skapa meðhjálpara sem hæfði honum. Guð lét manninn nefna öll dýr jarðarinnar og athuga hvort hann fyndi einhvern við sitt hæfi. En maðurinn fann engan við sitt hæfi og því lét Guð hann falla í djúpan svefn og tók eitt af rifjum mannsins og fyllti það af holdi og gerði úr því konu. 

Gyðingar líta svo á að Guð hafi skapað heiminn og allt sem í honum er. Guð er því skapari alls. Guð fæddist ekki, hann deyr ekki og hann hefur ekki þörf fyrir Guð, hann er Guð. Sköpunarsagan tengist einnig siðum og helgiathöfnum gyðinga. Gyðingar halda hvíldardaginn heilagan því Guð helgaði þann dag og hvíldi sig af verkum sínum. Einnig er nýárshátíðin eða rosh hashana haldin til þess að minnast sköpunarsögunnar.