Abraham

Gyðingdómur / Forsaga gyðingdóms / Abraham

Sækja pdf-skjal

 

Abraham Fyrir næstum 4000 árum var uppi maður sem hét Abraham og átti heima í Harran ásamt Söru konu sinni. Þeim vegnaði vel en áttu engin börn. Dag einn heyrði hann nafn sitt kallað og vissi að það var Guð sem talaði til hans. Guð sagði honum að yfirgefa landið og fara til þess lands sem Guð mundi vísa honum á. Þar mundi ætt Abrahams vaxa og verða mikil. Abraham vissi að óhætt var að hlýða Guði og hélt því af stað ásamt konu sinni og þjónum. Ferðin tók langan tíma og þau þurftu oft að stansa til að hvílast. Guð leiddi Abraham til Kaananlands og Guð sagði: Allt það land sem þú sérð gef ég þér og afkomendum þínum sem munu verða jafnmargir og öll sandkorn jarðarinnar.

Tíminn leið og fólkinu fjölgaði. Abraham og Sara voru orðin mjög fullorðin en eignuðust engin börn. Guð talaði til Abrahams og sagði honum að hann mundi eignast son og afkomendur hans yrðu jafnmargir og stjörnurnar á himninum. Árin liðu og Sara var orðin vonlítil um að eignast son. Hún ákvað því að Hagar, ambátt sín, skildi eignast barn með Abraham. Hagar eignaðist son með Abraham og hann var nefndur Ísmael. Dag einn komu þrír menn í tjaldbúðir Abrahams og var þeim vel tekið. Þeir sögðust koma aftur að ári og er þeir kæmu ætti Sara son. Sara var vonlítil um að það mundi rætast en Abraham vissi að mennirnir þrír voru Guð og englar hans tveir. Orð mannanna stóðu og Sara eignaðist son ári seinna sem nefndur var Ísak.

Gyðingar líta svo á að Abraham sé upphafsmaður gyðingdómsins og því ættfaðir allra gyðinga. Frásögnin af því þegar Guð biður Abraham að fylgja sér til Kanaanlands er þýðingarmikill í augum gyðinga vegna þess að þeir líta á það sem staðfestingu á tilkalli til landsvæðisins sem nú kallast Ísrael.

Hægt er að lesa nánar um það í kaflanum: Síðari tímar > Stofnun Ísraelsríkis.

Mjög þekkt er sagan af því þegar Guð bað Abraham að fórna Ísaki syni sínum sér til heiðurs og þar sem Abraham treysti Guði svo vel þá hlýddi hann boðinu. En um það leyti sem hann var tilbúinn til að fórna drengnum þá birtist honum engill, stoppaði hann og færði honum hrút til að fórna í stað Ísaks. Gyðingar líta svo á að þarna hafi Guð verið að prófa trúnað Abrahams til sín.