Tvístrun og ofsóknir gyðinga

Gyðingdómur / Síðari tímar / Tvístrun og ofsóknir gyðinga

Sækja pdf-skjal

 

Ester Rúmlega 50 árum f. Kr féll land Ísraelsmanna undir yfirráð rómverska heimsveldisins. Fyrst stjórnaði Heródes mikli landinu en hann lét meðal annars endurbyggja seinna musterið í Jerúsalem. Þegar Heródes lést tók sonur hans við en þótti mikill harðstjóri og var settur af árið 6. e.Kr og við tók stjórn rómverskra landstjóra.

Árið 66. e. Kr. hófst fyrra stríð gyðinga gegn Rómverjum sem stóð til ársins 73 e.Kr. Til er frásögn af því þegar hópur gyðinga sem nefndist Zealots eða Sílótar, í Masada-virkinu í suðurhluta Ísraels, börðust gegn Rómverjum á síðustu dögum stríðsins. Þeir börðust hetjulega í næstum tvo ár þó þeir væru mun færri og verr vopnum búnir heldur en rómverski herinn. Masada-virkið stendur á stapa, sem er um 434 metrar á hæð, við suðvestur strönd Dauðahafsins og var því mjög erfitt að komast að því. Rómverjum tókst ekki að komast að virkinu fyrr en þeir náðu að gera skarð í virkisvegginn. En Sílótarnir vildu frekar láta lífið heldur en að vera settir í þrældóm hjá Rómverjum. Þegar Rómverjar komust inn í virkið fundu þeir virkið í ljósum logum og alla íbúa þess látna fyrir utan tvær konur og fimm börn sem falið höfðu sig í vatnsleiðslu. Árið 2001 var Masada sett á heimsminjaskrá UNESCO.

Gyðingar töpuðu stríðinu og voru gerðir útlægir frá Jerúsalem og musteri þeirra eyðilagt. Margir hrökkluðust burt frá Palestínu og settust að í öðrum löndum. Gyðingar hafa í gegnum aldirnar þurft að sæta miklum fordómum og misrétti hvar sem þeir hafa sest að í heiminum, þó mismikið eftir tímabilum. Í Evrópu var algengt að þeir fengju ekki að setjast að þar sem þeir vildu heldur var þeim úthlutað ákveðnum hverfum sem þeir máttu búa í og nefndust þau „gettó“. Atvinnutækifæri og menntunarmöguleikar þeirra voru heldur ekki þeir sömu og hjá öðrum. Þetta varð til þess að gyðingar dreifðust víða um lönd. Fyrst var mest um að þeir færu til Austur-Evrópu, en seinna færðu þeir sig til Vestur-Evrópu og einnig til Asíu og Norður-Ameríku.

Í lok 19. aldar hafði gyðingahatur eða and-semitismi í Evrópu aukist gífurlega. Í framhaldi af þessu flúðu margir gyðingar til Ameríku og flestir þeirra settust að í borginni New York eða í nágrenni við hana.

And-semitisminn náði hámarki í seinni heimsstyrjöldinni, á árunum 1939 til 1945, þegar ofsóknir gegn gyðingum urðu að kynþáttahatri og þeir álitnir ómerkari og lægra settir en aðrir. Í valdatíð Hitlers og nasismans í Þýskalandi voru framin þjóðarmorð á gyðingum. Þeir voru pyntaðir og myrtir á kerfisbundinn hátt með þeim skelfilegu afleiðingum að sex milljónum gyðinga var útrýmt. Margar kvikmyndir hafa verið gerðar sem tengjast þessum atburðum sem kallaðir hafa verið einu nafni helförin, til dæmis Óskarsverðlaunamyndirnar Schindlers List, The Pianist og La Vita è bella.

Eftir að heimstyrjöldinni lauk fannst dagbók Önnu Frank. Anna Frank var unglingsstelpa af gyðingaættum og bjó í Amsterdam í Hollandi. Hún var í felum fyrir nasistum ásamt fjölskyldu sinni í tvö ár og á þeim tíma hélt Anna dagbók.  Nasistar náðu þó til þeirra að lokum og fjölskyldan send í fangabúðir þar sem Anna lést 15 ára gömul. Dagbók Önnu Frank var fyrst gefin út árið 1947 en hefur verið þýdd á 67 tungumál, þar á meðal íslensku.