Hvíldardagurinn

Gyðingdómur / Siðir / Hvíldardagurinn

Sækja pdf-skjal

 

Ester Frá því að sólin sest á föstudegi og til sólarlags á laugardegi er hvíldardagurinn eða sabbat. Hann er alþjóðlegur bænadagur gyðinga þar sem þeir fara með bænir og þakka Guði fyrir allt sem hann hefur fært þeim. Dagurinn tengist sköpunarsögu þeirra. Guð skapaði heiminn á sex dögum en hvíldi sig þann sjöunda og það sama gera þeir. Hvíldardagurinn er dagur gleðinnar og öll fjölskyldan eyðir honum saman. Í upphafi og við lok hans er kveikt á tveimur kertum, sabbatljósunum og farið með blessunarorð.
Á föstudagskvöldi borðar fjölskyldan saman sabbatmáltíð sem hefst á því að einhver úr fjölskyldunni fer með sérstaka blessun, sem kallast kiddush, yfir víni eða vínberjasafa sem allir matargestir dreypa svo á. Í stærri samfélögum eru haldnar guðsþjónustur í sýnagógunni á föstudagskvöldi eða laugardagsmorgni en á Íslandi hittast gyðingar stundum í heimahúsum eða í sal.
Hvíldardeginum lýkur svo með hátíðlegri athöfn sem nefnist havdala. Þá er kveikt á fléttuðu kerti sem lýsir inn í komandi viku. Farið með blessunarorð yfir víni og bauk sem inniheldur ilmandi krydd. Allir lykta úr bauknum til að taka hughrif sabbatsins með sér inn í vikuna. Síðan er ljósið slökkt með víninu.