Eyðimerkurförin

Gyðingdómur / Forsaga gyðingdóms / Eyðimerkurförin

Sækja pdf-skjal

 

Eyðimerkurförin Eftir að hafa fengið frelsið og komist yfir Rauðahafið héldu Ísraelsmenn inn í eyðimörkina. Ekki leið á löngu þar til matur og vatn var uppurið og menn fóru að kvarta við Móse. Vatnið sem þau fundu var ekki hægt að drekka en Guð var með fólkinu og hreinsaði vatnið.

Fólkið var fljótt að gleyma og skildi ekki af hverju það var leitt í eyðimörkina þar sem ekki var vatn og mat að fá. Móse fór á fund Guðs og sagði honum frá kvörtunum fólksins. Guð lofaði að senda kjöt til fólksins það sama kvöld og á hverjum degi mundi það fá brauð af himnum ofan. Fólkið var efins en um kvöldið flögruðu margar lynghænur um tjaldbúðirnar og allir fengu nægju sína af kjöti. Morguninn eftir var jörðin alhvít af korni. Móse sagði fólkinu að taka aðeins korn fyrir einn dag í einu nema á sjötta degi áttu þeir að safna tvöföldum skammti svo þeir gætu hvílst á hvíldardegi Guðs. Sumir reyndu þó að taka meira en þeir þurftu þann daginn en þegar þeir ætluðu að fara að gæða sér á því seinna var það maðkað og óætt. Guð sendi fólkinu korn á hverjum morgni allan þann tíma sem það dvaldi í eyðimörkinni og sá einnig til þess að það hefði nóg af vatni.

Ísraelsmenn voru 40 ár í eyðimörkinni og komust að ánni Jórdan en handan hennar var Kaananland, fyrirheitna landið. Móse entist ekki ævin til að fylgja Ísraelsmönnum inn í fyrirheitna landið og þegar hann lést skipaði Guð mann að nafni Jósúa sem leiðtoga þjóðarinnar. Jósúa leiddi fólkið inn í fyrirheitna landið eftir dvölina í eyðimörkinni.

Á laufskálahátíðinni minnast gyðingar dvalar Ísraelsmanna í eyðimörkinni. Í kaflanum Hátiðir > Laufskálahátíð er hægt að fræðast meira um páskana.