Ísraelska konungsríkið

Gyðingdómur / Forsaga gyðingdóms / Ísraelska konungsríkið

Sækja pdf-skjal

 

Jerúsalem Eftir að Móse lést fól Guð Jósúa það verkefni að leiða ísraelsku þjóðina inn í landið. Jósúa gerði eins og Guð bað og á skömmum tíma höfðu þeir lagt undir sig allt Kaananland. Dvölinni í eyðimörkinni var lokið og Ísraelsmenn bjuggu í friði í því landi sem Guð hafði lofað forfeðrum þeirra. Nokkru eftir að Ísraelsmenn komu til fyrirheitna landsins varð það konungsríki og undir stjórn fyrstu þriggja konunganna, Sál, Davíðs og Salómons, farnaðist Ísraelsmönnum mjög vel.

Davíð konungur

Talið er að velgengni Ísreaelsmanna hafi náð hámarki á valdatíma Davíðs konungs, sem kom á sameinuðu konungdæmi í allri Ísrael og gerði borgina Jerúsalem að höfuðborg ríkisins árið 993. f. Kr. Jerúsalem er þar af leiðandi oft kölluð borg Davíðs.

Davíð var elskaður og dáður af þjóð sinni og almennt talinn réttlátur og góður konungur. Davíð var auk þess afburða bardagakappi, tónlistarmaður og skáld en hann samdi Davíðssálmana, þekktustu ástarljóð Ísraelsmanna. 

Margar þekktar sögur eru til af Davíð en þekktust er líklega sagan af því þegar Davíð sem ungur fjárhirðir, leggur til atlögu gegn risavöxnum stríðsmanni Filestea, Golíat, og sigrar hann með litla steinslöngvu eina að vopni.

Salómon konungur

Sonur Davíðs, Salómon, var einnig farsæll konungur. Hann eignaðist marga bandamenn í nágrannaríkjunum, t.d. með því að kvænast systrum og dætrum konunga þeirra,  en sagan segir að hann hafi átt 700 eiginkonur. Undir hans stjórn varð ríkið mjög auðugt og Salómon lét reisa margar glæsilegar byggingar. Merkust þeirra var þó stórt og glæsilegt musteri í Jerúsalem, þar sem ekkert var til sparað. Inni í musterinu stóð sáttmálsörkin, heilög kista þar sem geymdar voru steintöflur með boðorðunum tíu sem Drottinn hafði gefið Móse á Sínaífjalli. Musterið varð miðdepill átrúnaðar Ísraelsmanna og einn helgasti staður þeirra og varð seinna þekkt sem fyrra musterið í Jerúsalem.

Salómon var einnig þekktur fyrir mikið ríkidæmi og djúpa visku. Í einni sögu af honum segir frá því er tvær konur koma til hans með lítið barn sem þær deila um. Þær segjast báðar vera móðir barnsins og óska þess að Salómon leysi málið. Þegar hann leggur til að höggva barnið í sundur með sverði og skipta því á milli kvennanna, hrópar önnur konan upp yfir sig og segir að hin konan megi halda barninu. Salómon sér þá að þetta er raunverulega móðirin, því hún kýs frekar að gefa frá sér barnið en að láta deyða það og fyrirskipar að hún eigi að halda barninu.

Undir lok valdatíma síns fór Salómon þó að tapa áttum. Hann varð gráðugur og fór að dýrka aðra guði. Þegar hann lést var farið að halla verulega undan fæti hjá honum og sundrung komin í ísraelsku þjóðina.

Ísrael og Júda

Skömmu eftir andlát Salómons eða árið 925 f. kr. skiptist Ísraelsríki upp í tvö konungsríki, Ísrael og Júda. Gullaldartíma Ísraelsþjóðar var þar með lokið. Margir sneru baki við Guði sínum og ísraelska þjóðin missti fljótt sjálfstæði sitt.

Árið 722 f. Kr. féll Ísrael í hendur Assýríumanna, þegnar ríkisins voru fluttir á brott og sneru aldrei aftur til baka.

Júda hélt hinsvegar sjálfstæði sínu nokkru lengur en árið 586 f. Kr. hertóku Babýloníumenn Júda og sá atburður átti eftir að breyta sögu Ísraelsmanna svo um munaði. Borgin Jerúsalem var í Júda og Babýloníumenn brenndu musteri Salómons til grunna auk þess sem íbúarnir í Júda voru neyddir í útlegð til Babýlon. Þeir fengu ekki að snúa aftur fyrr en hálfri öld síðar eða árið 538 f. Kr. en þá höfðu Persar sigrað Babýloníu. Aðeins hluti Ísraelsmanna sneri hinsvegar aftur heim en þar réðu erlend ríki yfir landinu. Margir urðu eftir í Babýlon og aðrir dreifðust um nágrannalöndin en við það breyttist margt í menningu þeirra. Þeir Ísraelsmenn  sem komu frá Júda voru kallaðir júðar eða gyðingar. Gyðingar nútímans eru afkomendur íbúa Júda og saga gyðingdóms hefst á þessum tíma og nær fram til okkar daga.