Hátíðir gyðinga skapa tilhlökkun enda eru þær samverustundir fjölskyldunnar og hafa því mikið gildi. Áður fyrr voru hátíðir í tengslum við árstíðirnar en seinna urðu þær til að minnast mikilvægra atburða í sögunni. Mikil áhersla er lögð á frásagnir á hátíðarstundum og á þann hátt fræðast börnin um trúna og sögu Ísraelsþjóðar.
Dagatal gyðinga miðast við tunglið, það er hver mánuður byrjar með nýju tungli. Í tólf mánaða ári tunglsins eru 354 dagar sem er ellefu dögum styttra heldur en sólárið. Mánuðirnir í tunglárinu eru því breytilegir miðað við sólárið og það sama gildir um hátíðarnar. En til þess að hátíðisdagar séu á réttum árstíðum þá er einum mánuði bætt við árið, sjö sinnum á hverjum nítján árum.