Gyðingdómur / Tákn og helgir dómar / Sýnagógan
Sýnagógan eða bet ha-knesset merkir samkomuhús og hefur orðið sem miðstöð trúarlífs gyðinga. Sýnagógan gegnir mikilvægu hlutverki í trúarlífi þeirra því þar kemur skýrt fram að trúin á Guð og það að lifa með Guði snýst ekki bara um einstaklinginn heldur einnig um málefni samfélagsins á hverjum stað og mikilvægi þess að tilheyra fjölskyldunni.
Sýnagógan er samkomuhús gyðinga þar sem þeir hittast og stunda trúarlegar athafnir. Sýnagógur geta verið mjög ólíkar eftir því hvar þær eru en ákveðin atriði eru alltaf eins. Inni í sýnagógunni, við austurhlið, er alltaf skápur sem nefndur er örkin og fyrir honum er forhengi. Örkin er eftirmynd af sáttmálsörkinni sem var geymd í musterinu í Jerúsalem. Inni í örkinni eru bókfell sem vafin eru upp í stranga og nefnast bókroðlur en þar eru Mósebækurnar fimm ritaðar og gyðingar nefna það Tóra eða lögmálið. Upphaflega var sáttmálsörkin kista sem hægt var að ferðast með en fékk svo fastan stað í musterinu til forna.
Þegar seinna musterið var eyðilagt tóku sýnagógurnar við mörgum athöfnum og þjónustu sem hafði verið í musterinu þó sérstaklega þeim sem tengdust hátíðum. Fórnir lögðust þó alveg af og hafa ekki verið stundaðar síðan.
Sýnagógurnar mega samt ekki vera eins uppbyggðar og musterin til forna en það merkir að þeir eigi að syrgja musterið sem enn í dag hefur ekki tekist að endurreisa. Ytra útlit sýnagógunar er ekki háð ákveðnum stíl nema þá helst sem fyrir finnst í hverju samfélagi fyrir sig. Það eru þó ákveðin atriði inni í sýnagógunni sem eru sameiginlegt öllum sýnagógum hvar sem þær er að finna í heiminum. Þær snúa allar í átt að Jerúsalem svo gyðingar geti horft í átt að þeim stað þar sem Guð staðsetti það helgasta af öllu heilögu. Allar sýnagógur eiga að hafa glugga, annars vegar til að horfa til himins og hins vegar til að minna á heiminn í kring sem einnig tilheyrir Guði. Gluggarnir eru oft hafðir tólf til að minna á hina tólf ættbálka Ísraels.
Inni í sýnagógunni er aðaláherslan á sáttmálsörkina þar sem bókroðlan með lögmálinu, Tóra, er geymd. Við hlið arkarinnar logar hið eilífa ljós sem minnir á nærveru Guðs og fyrir framan örkina er ræðustóll eða bimah sem notaður er þegar verið er að lesa upp úr lögmálinu. Bekkirnir fyrir samkomugesti snúa alltaf að örkinni. Sjö arma kertastjaka er hins vegar ekki að finna í sýnagógum þar sem hann var einn helsti skrautgripur musterisins til forna. Hins vegar er þar oft sex arma kertastjaki og í miðju hans Davíðsstjarnan.
En sýnagógur eru meira en bænahús því þær eru einnig skóli, bókasafn og félagsmiðstöð gyðinga í hverju samfélagi fyrir sig. Til að stofna nýjan söfnuð, samkvæmt gyðingdómi, þurfa að vera að minnsta kosti tíu fullorðnir gyðingar og nefnist það minyan.