Gyðingdómur / Forsaga gyðingdóms / Frelsunin frá Egyptalandi
Afkomendur Abrahams blómstruðu í margar kynslóðir og urðu stór þjóð eins og Guð hafði spáð. Mörg hundruð árum eftir daga Abrahams var þjóðin svo neydd til þess að vinna sem þrælar hjá konungi Egypta. En Ísraelsmenn voru fjölmennir og konungurinn óttaðist að þeir yrðu fleiri en Egyptar og taldi að það stafaði ógn af þeim. Hann skipaði því svo fyrir að öllum nýfæddum drengjum Ísraelsmanna yrði að kasta í Nílarfljót.
Ein ísraelsk kona eignaðist dreng á þessum tíma en faldi hann eins lengi og hún gat eða í þrjá mánuði. Þá útbjó hún körfu með loki og lagði drenginn í hana og lét körfuna svo fljóta niður ána. Drengurinn átti tvö eldri systkini, þau Aron og Mirjam. Mirjam fylgdist með körfunni sigla niður ána og sá þegar dóttir konungsins fann körfuna og lét þjónustustúlkur sínar sækja hana. Hún kíkti í körfuna og sá þar litla drenginn sem grét. Hún vissi að hann var af ætt Ísraelsmanna en kenndi í brjósti um hann og ákvað að taka hann að sér og ala hann upp eins og sinn eigin son. Drengurinn fékk nafnið Móse.
Þegar Móse varð fullorðinn sá hann hvernig komið var fyrir Ísraelsmönnum. Dag einn kom hann að Egypta sem var að slá ísraelskan þræl og varð svo reiður að hann réðst á Egyptan og drap hann. Móse flúði til Midíanslands gerðist þar hirðir og eignaðist konu og börn. En dag einn sá hann runna sem var alelda en brann þó ekki. Þegar hann gekk nær talaði Guð til hans og sagði honum að fara og leysa Ísraelsmenn úr ánauð Egypta. Móse var ekki viss um að hann gæti það en Guð sagðist verða með honum. Hann sagði honum einnig að Aron bróðir hans mundi hjálpa honum. Móse gerði eins og Guð sagði. En konungurinn vildi ekki sleppa Ísraelsmönnum. Guð lét því plágur geisa á Egyptaland þannig að uppskeran brást og afkoma fólksins varð slæm. Eftir níu plágur kom Guð að máli við Móse og sagði honum að þessi mánuður yrði upphafsmánuður hjá Ísraelsmönnum. Hann sagði honum jafnframt að láta alla Ísraelsmenn taka veturgamalt hrútlamb á 10. degi mánaðarins og slátra því svo á 14. degi við sólsetur. Blóði lambsins áttu Ísraelsmenn að smyrja á dyrastafinn sinn, steikja kjötið og borða það svo. Í Egyptalandi geisaði 10. plágan og allir frumburðir dóu nema þeirra sem farið höfðu eftir fyrirmælum Guðs.
„Gætið þessa sem ævinlegrar skipunar fyrir þig og börn þín. Og þegar þér komið í landið, sem Drottinn mun gefa yður, eins og hann hefir heitið, þá skuluð þér halda þennan sið. Og þegar börn yðar segja við yður: ,hvaða siður er þetta, sem þér haldið?’ þá skuluð þér svara: ,þetta er páskafórn Drottins, sem gekk fram hjá húsum Ísraelsmanna i Egyptalandi, þá er hann laust Egypta, en hlífði vorum húsum.’ “ (Biblían, 1981, 2M 12.24-28).
Þegar konungur fann son sinn látinn skipaði hann Ísraelsmönnum að fara. Ísraelsmenn tóku allt sem þeir áttu og héldu af stað en Guð leiðbeindi þeim hvert þeir ættu að fara. En konungi snerist hugur og lét elta Ísraelsmenn uppi til að reyna að ná þeim aftur. Þegar Ísraelsmenn komu að Rauðahafi hvíldu þeir sig en urðu þá varir við að hermenn konungs voru á eftir þeim. Guð sagði þá Móse að lyfta stafnum sínum út yfir Rauðahafið en við það klofnaði vatnið og myndaði gangveg svo Ísraelsmenn gátu gengið þurrum fótum yfir. Hermennirnir eltu, en þegar Ísraelsmenn náðu landi féll sjórinn í sama farveg og hermennirnir drukknuðu. Ísraelsmenn þökkuðu Guði og fögnuðu frelsinu.
Á páskahátíðinni minnast gyðingar frelsunar Ísraelsmanna frá Egyptalandi. Í kaflanum Hátiðir > Páskar er hægt að fræðast meira um páskana.