Páskar

Gyðingdómur / Hátíðir / Páskar

Sækja pdf-skjal

 

Ester Mikilvægasta hátíð gyðinga eru páskarnir eða pesach. Þá minnast þeir þess tíma þegar forfeðurnir voru þrælar í Egyptalandi en Guð frelsaði þá úr ánauð.

Páskarnir eru haldnir í mars eða apríl og standa í átta daga og tveir fyrstu dagarnir eru mikilvægastir. Hátíðin hefst á því að fjölskyldan rifjar upp þennan mikilvægasta atburð í sögu okkar. Stuðst er við bók sem nefnist Haggada en í henni eru ýmsar frásagnir úr biblíunni ásamt söngvum. Hægt er að lesa meira um Haggada í kaflanum Kennisetningar og reglur > Helgirit. Fjölskyldur safnast þá saman og halda seder sem eru hátíðarkvöldverðir. Það er mikil gleði og eftirvænting hjá börnunum við undirbúning páskamáltíðarinnar og skiptir hann gyðinga miklu máli. Allt sem fram fer þetta kvöld minnir á einhvern hátt á frelsun Ísraelsþjóðar undan Egyptum. Borið er fram þunnt, flatt og gerlaust brauð sem minnir á brauðið sem Ísraelsmenn tóku með sér í flýti þegar þeir yfirgáfu Egyptaland. Ýmiss annar matur er hafður á borðum sem minnir á einhvern hátt á flóttann. Einnig er hægt að fræðast meira um matarvenjur tengdar páskum í kaflanum Siðir > Matarvenjur.