Kristni / Forsaga - Líf Jesús / Jesús og lærisveinarnir
 
Þegar Jesús lét skírast var hann um þrítugt. Upp úr því hóf hann sjálfur að predika og kenna fólki að lifa samkvæmt fyrirmælum Guðs. Á þessum tíma var algengt að þeir sem þekktu vel til lögmálsins færu um og kenndu fólki að lifa og starfa eftir því. Jesús var þó frábrugðinn öðrum predikurum að því leyti að hann útskýrði hlutina öðruvísi og fór ekki alltaf eftir þeim trúarreglum sem hinir sögðu að væru réttar. Til að byrja með ferðaðist hann um Galíleu. Aðallega í kringum Galíleuvatn en einnig í Kapernaum sem var lítill verslunarbær í héraðinu. Smám saman fjölgaði fólki sem trúði því sem hann sagði og gerði. Jesús var talinn búa yfir þeim krafti að geta læknað þá sem voru veikir og hjálpað þeim sem minna máttu sín án þess að dæma þá. Hann talaði til fólksins í synagógum, musterinu í Jerúsalem og einnig úti undir berum himni. Allsstaðar þar sem hann kom gaf hann sér tíma til að tala við fólkið og hjálpa því.
Eitt sinn þegar Jesús var við Galíleuvatn kom mikill fjöldi fólks til að hlusta á hann. Jesús bað þá Símon Pétur, fiskimann, að róa með sig örlítið frá landi og þaðan talaði hann til fólksins. Þegar hann var búinn að því bað hann Símon Pétur að róa með sig lengra út á vatnið til að veiða fisk. Símon Pétur og fleiri fiskimenn höfðu verið alla nóttina að veiðum en ekki fengið neinn fisk. Símon Pétur var því mjög efins en ákvað að gera eins og Jesús bað hann um. Símon Pétur kastaði netinu út í vatnið og það fylltist á augabragði af fiski. Hinir fiskimennirnir gerðu eins og Símon Pétur og netin fylltust um leið. Símon Pétur gerði sér grein fyrir því að Jesús hlyti að búa yfir einhverjum krafti fyrst hann gat fært þeim fisk á stað þar sem búið var að reyna að veiða án árangurs. Símon Pétur og nokkrir aðrir fiskimenn ákváðu að fylgja Jesú og hjálpa honum að sannfæra fólk um að fara eftir því sem hann kenndi.
Þó að margt fólk fylgdi Jesú eftir ákvað hann að velja sér sérstaklega tólf lærisveina. Lærisveinn þýðir nemandi eða lærlingur. Hann ákvað fyrst að velja Símon Pétur og svo Andrés bróður hans, bræðurna Jakob og Jóhannes, Filippus, Bartólómeus, Matteus, Tómas, Jakob Alfeusson, Símon vandlætara, Júdas Jakobsson og að lokum Júdas Ískaríot. Hann gerði miklar kröfur til lærisveinanna tólf því þeir urðu að fylgja honum hvert sem hann fór, yfirgefa fjölskyldur sínar og lifa án alls óþarfa. Hann sagði þeim jafnframt að þeir mættu búast við mikilli gagnrýni og það kæmu tímabil sem yrðu mjög erfið.