Síðasta kvöldmáltíðin

Kristni / Forsaga - Líf Jesús / Síðasta kvöldmáltíðin

Sækja pdf-skjal

 

Síðasta kvöldmáltíðin Jesús kom til Jerúsalem til að halda upp á páskahátíðina. Jesús vissi jafnframt að þetta yrði síðasta máltíðin sem hann og lærisveinar hans snæddu saman og sagði þeim það. Áður en þeir settust til borðs tók Jesús fram fat og bauð lærisveinum sínum að þvo fætur þeirra. Þeir urðu mjög hissa og sögðu við Jesú að hann væri mun merkilegri en þeir og því ætti hann ekki að þvo fætur þeirra heldur þeir hans. Jesús minnti þá á að í augum Guðs væru allir menn jafnir og því ætti að koma eins fram við alla. Hann gæti vel þvegið fætur lærisveina sinna eins og þeir hans. Eftir þvottinn settust allir saman til borðs og Jesús minnti þá á að þetta væri þeirra síðasta máltíð. Hann sagðist einnig vita að einn þeirra myndi svíkja sig og segja óvildarmönnum sínum hvar hann væri að finna svo þeir gætu handtekið hann. Lærisveinarnir urðu hneykslaðir og sögðu að enginn þeirra myndi svíkja hann eða snúa við honum baki. Lærisveinarnir litu hver á annan en enginn þeirra þóttist kannast við svikin. Jesús tók brauðið og skipti því á milli þeirra allra. Hann sagði svo „Takið og etið, þetta er líkami minn“ (Mt26.26). Því næst setti hann vín í bikar og sagði „Drekkið allir hér af. Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda“ (Mt26.27). Þegar allir höfðu etið brauðið og drukkið af bikarnum bað Jesús þá um að koma saman, borða brauð og drekka vín þegar þeir vildu minnast hans eftir að hann færi frá þeim.

Jesús og lærisveinarnir sátu saman fram eftir kvöldi. Hann sagði þeim að þrátt fyrir að hann færi og erfiðir tímar væru framundan þá væri Guð með þeim og hjálpaði þeim. Hann sagði þeim líka að hann kæmi til þeirra þó þeir héldu að hann væri farinn og kæmist alls ekki til baka. Lærisveinarnir sögðu við Jesú að hann mætti ekki yfirgefa þá en Jesús sagði að það yrðu þeir sem yfirgæfu hann í nótt en ekki öfugt. Símon Pétur var mjög hneykslaður og sagðist aldrei yfirgefa hann eða svíkja. Þá sagði Jesús: „Ég segi þér Pétur. Áður en hani galar í dag, munt þú þrisvar hafa neitað því, að þú þekkir mig“ (Lk22.34).

Seint um kvöldið héldu Jesús og lærisveinar hans í átt til Olíufjalls en stoppuðu í grasagarðinum Getsemane til að biðjast fyrir. Jesús lagðist á bæn spölkorn frá lærisveinum sínum því að hann vissi hvað beið hans en hann var hræddur. Engill birtist honum og styrkti hann í að gefast ekki upp fyrir þeim sem sóttu að honum. Lærisveinarnir reyndu að halda sér vakandi og biðjast líka fyrir en sofnuðu að lokum allir. Þegar Jesús kom til baka vakti hann þá og sagði þeim að sá sem ætlaði að svíkja hann væri kominn. Þá birtist út úr myrkrinu Júdas Ískaríot og með honum hópur manna sem voru æðstu prestar gyðinga og varðforingjar helgidómsins og öldungarnir. Þeir réðust að Jesú en hann stóð kyrr og beið þess sem koma skildi. Lærisveinarnir urðu hræddir, sáu ekki vel í myrkrinu og fundu ekki hver annan til að standa saman og forðuðu sér.

Jesús var handtekinn og farið með hann heim til æðsta prestsins. Símon Pétur elti en passaði sig á að láta ekki sjást til sín. Hann settist svo niður hjá fólki sem kveikt hafði eld í garðinum en einn í hópnum spurði hvort hann hefði ekki verið með Jesú, manninum sem þeir handtóku. Pétur neitaði því og hélt áfram. Þá koma að honum annar maður og spurði hvort hann væri einn af þeim sem fylgdi Jesú en Pétur sagðist ekki þekkja neinn Jesú. Í þriðja sinn kom að honum maður og spurði hann að því sama og hinir en enn neitaði Símon Pétur. Þegar hann hafði neitað þriðja manninum heyrði hann að haninn galaði og þá mundi hann eftir því sem Jesús sagði. Símon Pétur varð mjög hryggur og miður sín yfir að hafa svikið Jesú.

Þessa atburða minnast kristnir menn á páskahátíðinni.