Kristni / Forsaga - Líf Jesús / Jesús vex úr grasi
 
Jósef og María voru bæði gyðingar en samkvæmt lögmáli þeirra átti að umskera drengi átta daga gamla og gefa þeim nafn. María og Jósef létu gera það og nefndu drenginn sinn Jesú eins og engillinn hafði sagt þeim að gera. Þegar Jesús var 40 daga gamall fóru þau með hann í musterið þar sem hann var helgaður drottni. Í musterinu var þeim sagt að Jesús væri ekkert venjulegt barn og hann ætti eftir að hafa mikil áhrif. Nokkru síðar dreymdi Jósef að engill kæmi til hans og segði honum að flýja með Maríu og Jesú til Egyptalands. Heródes konungur hræddist mjög þetta nýfædda barn sem talið var konungur Gyðinga eða Messías. Gyðingar voru búnir að spá því að Messías myndi fæðast og frelsa þá undan harðstjórn Heródesar. Heródes ákvað því að taka enga áhættu á að missa völdin og sendi út þau boð að drepa ætti alla drengi í Betlehem, tveggja ára og yngri. María, Jósef og Jesús héldu því til Egyptalands og bjuggu þar þangað til þau fréttu að Heródes væri látinn. Þegar þau sneru aftur til Palestínu fréttu þau að sonur Heródesar hefði tekið við stjórn. Þau ákváðu því að setjast frekar að í gamla heimabænum sínum, Nasaret, heldur en að snúa aftur til Betlehem. Jesús ólst því upp í Nasaret sem er lítið þorp í héraðinu Galíles í Norður-Palestínu.
María og Jósef voru sanntrúaðir gyðingar og því fékk Jesús svipað uppeldi og aðrir drengir á hans tíma. Hann lærði að lesa og skrifa í samkunduhúsinu auk þess að fræðast um lögmál gyðinga sem hann sýndi mikinn áhuga. Þegar Jesús var tólf ára fór hann með foreldrum sínum, ættingjum og vinum til Jerúsalem og var þar um páskahátíðina. Þegar henni var lokið héldu María og Jósef til baka heim í þeirri vissu að Jesús hefði lagt af stað með vinum sínum. En þegar enginn kannaðist við að hafa séð hann sneru þau til baka og leituðu að honum um alla Jerúsalem. Þrem dögum seinna fundu þau hann í musterinu þar sem hann sat og ræddi við lærimeistara musterisins um lögmálið. Þegar María skammaði hann varð hann mjög hissa og skildi ekki af hverju þau höfðu verið að leita að honum þar sem hann væri í húsi föður síns. Jesús fór með þeim aftur heim til Nasaret en lærimeistararnir voru mjög undrandi á því hversu mikinn áhuga hann sýndi og hversu vel hann virtist skilja það sem rætt var um.