Dæmisögur Jesús

Kristni / Forsaga - Líf Jesús / Dæmisögur Jesús

Sækja pdf-skjal

 

Dæmisögur Jesús Þó Jesú gæti læknað fólk og gert ýmis kraftaverk þá vildi hann frekar að fólk hlustaði á það sem hann hefði að segja, tæki það til sín og lifði samkvæmt því. Til að auðvelda fólkinu að skilja það sem hann sagði notaði hann dæmisögur og líkingar. Mjög margar dæmisögur er að finna í Nýja testamentinu. Sagan hér á eftir er um það hvernig hægt er að eignast eilíft líf:

Dag nokkurn kom maður til Jesú og spurði hvernig hann gæti eignast eilíft líf. Jesús sagði honum að elska náungann eins og sjálfan sig og þá mundi hann eignast eilíft líf. Maðurinn spurði þá hvernig hann vissi hver væri náungi hans og hver ekki. Jesús sagði honum þá söguna af miskunnsama samverjanum. Hún var um mann sem var að ganga á milli þorpa þegar ræningjar réðust á hann. Þeir rændu hann og börðu svo illa að hann gat sig ekki hreyft. Hann lá í vegkantinum ósjálfbjarga þegar aðkomumaður gekk framhjá honum. Aðkomumaðurinn leit á hann en flýtti sér í burtu og lét sem hann tæki ekki eftir honum. Það sama gerði næsti aðkomumaður sem átti leið hjá. Sá þriðji fann hins vegar til með manninum og vildi hjálpa honum. Hann nam staðar, batt um sár hans og flutti hann á næsta gistihús þar sem hann hlúði betur að manninum. Daginn eftir borgaði aðkomumaðurinn húseigendum fyrir að annast manninn þar til hann gæti bjargað sér sjálfur. Þegar Jesús hafði lokið við söguna sagði hann við manninn sem hafði komið til hans að hann ætti að gera eins og aðkomumaðurinn sem hjálpaði slasaða manninum. Koma fram við alla eins og náunga sinn og þá mundi hann eignast eilíft líf.