Stoðirnar fimm

Íslam / Kennisetningar og reglur / Stoðirnar fimm

Sækja pdf-skjal

 

Öllum þeim sem aðhyllast íslam er skylt að læra og framkvæma fimm frumskyldur. Þessar frumskyldur eru einnig nefndar hinar fimm stoðir íslams. Kóraninn segir frá þessum frumskyldum og mikil áhersla er lögð á þær innan íslams.

Shahadah eða trúarjátningin er mikilvægasta stoð íslams. Hún er grundvallarþáttur í lífi múslima og oft sögð í daglegu lífi múslima. Þegar barn fæðist er trúarjátningunni hvíslað í eyra þess svo það sé það fyrsta sem það heyrir þegar það kemur í heiminn. Þegar múslimar fara með trúarjátninguna segja þeir: „Það er enginn guð nema Allah, Múhameð er sendiboði hans.

Salat eða bænir eru næst mikilvægasta stoðin. Bænir eru mikilvægar í augum múslima og þeim er skylt að fara með þær fimm sinnum á dag. Við sólarupprás, í hádeginu, um miðjan daginn, við sólarlag og þá síðustu um klukkustund eftir sólarlag. Fyrir bænastundina verður að undirbúa sig andlega og líkamlega. Það er gert með því að þvo sér um andlit, höfuð, hendur og fætur áður en beðist er fyrir. Einnig er mikilvægt að hafa fulla einbeitingu meðan á bæninni stendur. Bænastundin er eftir ákveðnum reglum bæði hvað varðar það sem sagt er og hvernig menn bera sig að við bænir. Til að mynda eiga múslimar alltaf að snúa í átt að Kaba í Mekku þegar þeir biðja. Hádegisbænin á föstudögum hefur einnig sérstöðu en þá er öllum karlmönnum skylt að mæta til bænar í mosku, konur hafa hins vegar val um það hvort þær mæta eða ekki.

Zakat eða ölmusa. Múslimum er skylt að borga fátækraskatt sem er reiknaður sem hlutfall af tekjum og eignum. Þannig borgar hver og einn eftir efnum og aðstæðum hverju sinni. Margir gefa þó meira til fátækra heldur en skatturinn segir til um. Hugsunin með fátækraskattinum er sú að með því að greiða hann þá sé verið að koma í veg fyrir græðgi meðal þeirra ríku en öfund hjá þeim fátæku. Segja má því að þetta sé einskonar hreinsun.

Saum eða fasta. Í Ramadanmánuði fasta múslimar frá sólarupprás til sólarlags. Þeir mega ekki borða, drekka eða stunda kynlíf. Með föstunni þjálfast menn til dæmis í þolinmæði, viljastyrk og samkennd. Þeir sem neyta ekki matar vita betur hvernig þeim þurfandi líður. Hins vegar er ungum börnum, barnshafandi konum og öldruðum ekki skylt að fasta og það sama á við þá sem eru veikir eða heilsutæpir.

Hajj eða pílagrímsferð til Mekku. Allir þeir sem hafa efni og aðstæður til eiga að fara í pílagrímsferð til Mekku einu sinni á ævinni. Síðasti mánuður íslamska ársins er notaður til að fara í pílagrímsferðir enda heitir hann Pílagrímsmánuður eða dhul hijja. Pílagrímarnir klæðast allir hvítum kufli því hér mætast allir jafnir frammi fyrir Guði. Þeir þurfa að ganga sjö hringi í kringum Kaba sem er í Mekku. Því næst hlaupa þeir sjö sinnum á milli tveggja hæða sem nefnast Safa og Marwa en með því er verið að minnast þess þegar Hagar fór að leita að vatni handa Ísmael syni sínum. Einnig fara menn á Arafatsléttuna og kasta þar steinum að súlum en með því er verið að minnast þess þegar djöfullinn freistaði Ísmael og Abrahams. Þessar sögur má lesa í kaflanum: Forsaga íslams > Sögur af Ísmael.

Pílagrímsförinni lýkur svo með göngu umhverfis Kaba. Margir fara einnig til Medínu að gröf Múhameðs spámanns þó það sé ekki endilega hluti af pílagrímsförinni. Með því að skylda múslima til að fara í pílagrímsferð, ef möguleiki er á, eru þeir stöðugt minntir á einingu alls samfélagsins.

Lesa má meira um pílagrímsferðina í kaflanum: Hátíðir > Hajj og fórnarhátíðin.