Íslam / Forsaga íslams / Sögur af Ísmael
 
Fyrir um það bil 4000 árum var uppi maður sem hét Abraham. Hann hafði helgað sig Guði. Hann bjó í eyðimörkinni ásamt konum sínum tveim, þeim Söru og Hagar, og átti einn ungan son Ísmael.
Guð lagði fyrir Abraham mikla prófraun. Nótt eina dreymdi Abraham að Guð sagði honum að hann yrði að fórna því dýrmætasta sem hann ætti, syni sínum Ísmael. Abraham fór á fund sonar síns og sagði honum frá draumnum. Ísmael skildi að Abraham varð að hlýða Guði og fór því með honum. Á leiðinni mættu þeir djöflinum í mannsmynd sem reyndi að fá þá til að óhlýðnast orðum Guðs. En þeir hlustuðu ekki á hann og héldu för sinni áfram. En djöfullinn hélt áfram að birtast þeim og reyna að fá þá til þess að óhlýðnast Guði. Abraham og Ísmael ákváðu að kasta steinum í djöfulinn og að endingu hvarf hann og birtist þeim ekki aftur.
Þegar þeir komu á áfangastað lagðist Ísmael á grúfu svo hann þyrfti ekki að horfa framan í föður sinn. Abraham dró fram stóran hníf og lagði hann að hálsi Ísmaels. Í sömu andrá var hnífurinn slegin úr hendi Abrahams og Guð talaði til hans. Hann sagði: „Abraham þú hefur sýnt mér mikla tryggð og hlýðni. Taktu frekar þennan hrút og fórnaðu honum“. Abraham og Ísmael tóku hrútinn og fórnuðu honum eins og Guð bað.
Múslimar minnast þessa atburðar með fórnarhátíðinni sem er helgasta hátíð þeirra og er í lok pílagrímsmánaðar.
Öðru sinni kom Guð að máli við Abraham og sagði honum að fara með Ísmael og móður hans, Hagar, út í eyðimörkina og skilja þau þar eftir. Abraham hlýddi Guði og fór með þau út í eyðimörkina og skildi þau þar eftir með nokkrar döðlur og vatn.
Nokkru seinna var vatnið allt uppurið og hvergi skjól að finna fyrir brennandi sólinni. Hagar og Ísmael urðu mjög þyrst en þau fundu hvergi vatn. Hagar skildi Ísmael eftir og fór að leita að vatni. Hún hljóp fram og til baka á milli hæðanna en fann hvergi vatn. Hún vissi ekki hvað hún átti að gera en þá heyrði hún rödd sem kallaði til hennar. Engillinn Gabríel var kominn til hennar og benti henni í átt að Ísmael. Þá sá Hagar hvar vatnið streymdi upp við fætur Ísmaels. Guð hafði séð þeim fyrir nægjanlegu vatni með því að opna fyrir lindina sem seinna var nefnd Zam Zam. Zam Zam lindin er staðsett nálægt Kaba, inni í moskunni Al-Masjid al-Harām, í borginni Mekka.