Íslam / Hátíðir / Hajj og fórnarhátíðin
 
Ein af frumskyldum hvers múslima er að fara í pílagrímsferð til Mekku einu sinni á ævinni hafi hann efni og aðstæður til. Slík ferð kallast hajj. Síðasti mánuður íslamska dagatalsins heitir Dhu al-Hijjah mánuður (pílagrímsmánuður) og þá fara múslimar í pílagrímsferðina.
Í pílagrímsferðunum er lögð áhersla á það að allir mætist jafnir frammi fyrir Guði og því klæðast allir hvítum kufli. Í fyrri hluta pílagrímsferðarinnar ganga þúsundir pílagríma sjö hringi í kringum Kaba sem er ferköntuð bygging inni í moskunni Al-Masjid al-Ḥarām, í Mekku. Því næst hlaupa þeir sjö sinnum á milli tveggja hæða sem nefnast Safa og Marwa en með því er verið að minnast þess þegar Hagar fór að leita að vatni handa Ísmael syni sínum.
Nokkrum dögum síðar er ferðinni heitið til borgarinnar Minu á Arafatsléttunni. Í borginni eru þrjár súlur sem pílagrímarnir kasta steinum að en með því er verið að minnast þess þegar djöfullinn freistaði Ísmaels og Abrahams.
Þá er komið að hápunkti ferðarinnar sem er fórnarhátíðin eða Eid Al-Adha. Hátíðin er helgasta hátíð múslima og stendur í fjóra daga. Á þessum tíma minnast múslimar þess þegar Guð gaf Abraham hrút til að fórna í stað sonar síns Ísmaels. Fórnarhátíðin markar lok pílagrímsferðarinnar og í lok hennar ganga pílagrímarnir aftur í kringum Kaba.
Sögurnar um Ísmael má lesa í kaflanum: Forsaga íslams > Sögur af Ísmael.
Hátíðin er hins vegar ekki eingöngu haldin af þeim sem eru í pílagrímsferð, heldur er hún haldin hátíðleg af múslimum um allan heim. Hátíðin hefst á sameiginlegu bænahaldi við sólarupprás á tíunda degi mánaðarins. Fjölskyldan fer svo í fín föt, skiptist á gjöfum og borðar saman.
Áður fyrr var hefð fyrir því að þeir sem höfðu efni á fórnuðu einhverri af skepnum sínum og skiptu svo kjötinu á milli sín, fátækra og ættingja. Í dag eru flest allir hættir að stunda landbúnað og því gefa menn fátækum frekar mat eða peninga til matarkaupa.