helgar_borgir

Íslam / Tákn og helgir dómar / Helgar borgir

Sækja pdf-skjal

 

Mekka

Borgin Mekka í Sádi-Arabíu er helgasta borg múslima enda fæðingarstaður Múhameðs. Mekka var forn helgidómur áður en Múhameð fæddist og nefndist þá al-Haram sem merkir friðhelgur. Á þessum tíma var Mekka miðpunktur trúarlífs á Arabíuskaganum og áfangastaður pílagrímsferða en einnig kom fólk saman í borginni til að eiga viðskipti hvert við annað. Múhameð bjó í Mekku til ársins 622 en þá flúðu hann og fylgismenn hans til Medínu vegna ofsókna. Múhameð náði þó Mekku á sitt vald árið 630. Í Mekku er Kaba sem er mesti helgidómur múslima. Alls staðar í heiminum snúa múslimar í átt að Mekku þegar þeir biðjast fyrir. Í pílagrímsmánuðinum eða Dhu al-Hijjah koma mörg þúsund pílagrímar til Mekku, enda ein af frumskyldum múslima að fara pílagrímsferð þangað einu sinni á ævinni ef þeir hafa efni og aðstæður til. 

Hægt er að lesa meira um pílagrímsferðirnar í kaflanum: Hátíðir > Hajj og fórnarhátíðin.

Medína

Medína er staðsett aðeins norðar en Mekka og er næst helgasta borg múslima. Þangað flúði Múhameð árið 622 ásamt fylgismönnum sínum. Ferð Múhameðs frá Mekku til Medínu nefnist hijra og er upphaf að stofnun íslamsks samfélags sem nefnist umma en einnig upphaf tímatals múslima.

Hægt er að lesa betur um hijra í kaflanum: Forsaga íslam > Frá Mekka til Medína.

Múhameð átti miklu fylgi að fagna í Medínu og varð bæði andlegur og veraldlegur leiðtogi þar. Múhameð fór með stjórn hernaðar, pólitíkur og trúarlegra málefna í Medínu og varð mikilsvirtur leiðtogi. Þó Múhameð hefði náð Mekku á sitt vald hélt hann áfram að búa í Medínu og lést þar í júní árið 632.

Jerúsalem

Jerúsalem er þriðja helgasta borg múslima sökum þess að þangað fór Múhameð ásamt englinum Gabríel til að hitta aðra spámenn Guðs og þaðan opnaðist honum aðgangur að Paradís er hann fór upp í sjöunda himin. Þetta átti sér stað á Musterishæðinni í Jerúsalem og þar stendur í dag ein helgasta moska múslima.

Hægt er að lesa betur um þetta ferðalag í kaflanum: Forsaga íslams > Nótt ferðalagsins.