Spámenn Guðs

Íslam / Kennisetningar og reglur / Spámenn Guðs

Sækja pdf-skjal

 

Samkvæmt íslam var Múhameð síðastur í röð spámanna Guðs. Á undan honum komu aðrir spámenn eins og Nói, Abraham, Móse og Jesús. Múhameð var valinn af Guði til að vera boðberi hans. Múslimar leggja mikla áherslu á að Múhameð var ekki guðlegur heldur mennskur eins og aðrir spámenn sem á undan honum komu. Múslimar viðurkenna ekki að Jesú hafi verið sonur Guðs en þeir viðurkenna hann sem spámann.  

Samkvæmt íslam er hlutverk spámanna mjög mikilvægt. Þeir eru valdir og blessaðir af Guði til þess að útskýra og leiðbeina þjóð sinni. Guð velur þá sem honum eru þóknanlegir og færir um að sýna fordæmi í siðferðislegum og andlegum efnum. Spámönnum opinberast orð Guðs svo þeir geti kennt manninum að lifa samkvæmt kenningu hans. Einkenni spámanna er að þeir drýgja ekki syndir en eiga það til að gera minniháttar mistök sem eru þá leiðrétt með opinberunum. Þeir fá styrk frá Guði til að framkvæma kraftaverk og sýna á þann hátt mátt Guðs. Spámenn staðfesta þann boðskap sem á undan hefur komið og segja frá þeim sem á eftir að koma fram.

Múhameð spámaður fæddist árið 570 e.Kr. í borginni Mekku í Arabíu. Frá sex ára aldri var hann munaðarlaus en var alinn upp af frænda sínum. Sem ungur maður fór hann að vinna fyrir sér hjá ríkri ekkju að nafni Khadija og giftist henni svo. Hann varð verslunarmaður og eignaðist börn með henni en aðeins ein dóttir hans, Fatíma, er talin hafa lifað hann.

Múhameð meðtók fyrstu opinberunina fertugur að aldri en um leið og hann hóf að boða íslam sættu hann og fylgjendur hans mjög miklum ofsóknum. Khadija kona hans dó árið 619 sem var mikið áfall fyrir Múhameð, en auk þess lést frændi hans þetta ár og því er það oft nefnt ár sorgarinnar.

Múhameð og hans náni samstarfsmaður Abu Bakr flúðu svo frá Mekku til Medína árið 622. Múhameð varð leiðtogi í Medía og naut mikilla vinsælda auk þess sem hann giftist dóttur Abu Bakr, Aisha.

Á aðeins 23 árum lauk Múhameð köllunarverki sínu sem spámaður og dó 63 ára gamall eða í júní árið 632. Múslimar telja lifnaðarhætti hans vera öðrum fyrirmynd enda einkenndist líf hans og gerðir af því sem Kóraninn boðar.