Helgirit

Íslam / Kennisetningar og reglur / Helgirit

Sækja pdf-skjal

 

Kóraninn eða Qur’an, er helsta trúarrit múslima. Múslimar trúa því að Kóraninn innihaldi hið eilífa orð Guðs sem talaði til Múhameðs á sama hátt og sagt er að Guð hafi talað til annarra spámanna eins og Móse og Jesú. Samkvæmt íslam er Kóraninn síðasta opinberun Guðs, flutt af Múhameð. Hægt er að lesa nánar um opinberun Múhameðs í kaflanum: Forsaga íslams > Fyrsta opinberun Múhameðs.

Múhameð gat hvorki lesið né skrifað en fylgismenn hans skráðu niður opinberanir hans og þess vegna er litið á Kóraninn sem óspilltasta orð Guðs. Frumtextinn er ritaður á arabísku og honum hefur ekkert verið breytt síðan á dögum Múhameðs. Múslimar leggja áherslu á að læra arabísku til að geta lesið frumtextann. Merking textans hefur þó verið þýdd yfir á mjög mörg tungumál.

Í Kóraninum er grundvöllur íslamskra kenninga og laga. Þar er að finna fræðslu um samband Guðs og manns, siðfræði, trúarreglur og tilbeiðsluna en Kóraninn á að minna manninn á tilgang lífsins og skyldur mannsins við sjálfan sig, náunga sinn og ekki síst skapara sinn. Í Kóraninum er að finna fræðslu um allt það sem snertir samfélagið eins og lagasetningar, stjórnmál, félagsmál og alþjóðleg samskipti. Grundvöllur menntunar múslima byggðist á Kóraninum og mikil áhersla er lögð á að læra hann utanbókar.

Kóraninn skiptist í 114 kafla sem nefnast súrur og undir hverri súru eru vers eða ayat. Súrunum er raðað eftir lengd þar sem þær stystu eru aftast en lengstu fremst fyrir utan eina undantekningu sem er fyrsta súran, al-Fatiha, en í henni eru sjö vers. Súrurnar eru einnig flokkaðar eftir því hvort þær opinberuðust Múhameð í Mekku eða Medínu. Fremst eru þær sem birtust honum í Medínu en aftar þær sem birtust honum í Mekku.

Í augum múslima hefur fyrsta súran sérstaka merkingu á svipaðan hátt og Faðir vor fyrir kristna menn. 

Hadith-safnið er einnig mikilvægt trúarrit í augum múslima. Þar er að finna tilsvör Múhameðs en einnig er þar skráð það sem hann gerði meðan hann lifði. Eftir að Múhameð féll frá hófu menn að skrá niður störf hans og safna saman því sem hafði verið haft eftir honum. Hadith safnið er því einnig nefnt Vegur Múhameðs.

Sharia eru siðareglur sem eru lagðar til grundvallar í hinu íslamska trúarlögmáli. Samkvæmt ströngustu hefð íslams eru það ekki mennirnir sem setja lögin í samfélaginu, því þau koma frá Guði. Lögin er að finna í Kóraninum, ummælum og dómum Múhameðs auk þeirra hefða sem sköpuðust við upphaf íslamsríkis. Trúarlegir fræðimenn, sem nefnast ulama, túlkuðu trúarritin, Hadith og Kóraninn, og skráðu niðurstöður sínar í Sharia. Þegar múslimar kerfjast íslamskra laga eru þeir að vísa til Sharia.