Gúrú

Hindúatrú / Kennisetningar / Gúrú

Sækja pdf-skjal

 

Gúrú Gúrú er andlegur kennari í hindúatrú og meistari fræðanna. Hann miðlar ekki aðeins þekkingu sinni til nemendanna heldur leiðbeinir hann þeim um hvernig þeir skuli haga sér og lifa til að vera í sátt við Guð, sjálfa sig og aðra menn. Hindúar geta þannig leitað til síns gúrús með margvísleg vandamál og spurningar. Gúrúar þykja mjög merkilegir og mikil virðing er borin fyrir þeim. Sumir hindúar dýrka jafnvel ákveðna gúrúa eins og guði. Þegar gúru fellur frá er hann ætíð búinn að þjálfa upp einn eða fleiri arftaka sem halda áfram að kenna boðskap hans en mismunandi gúrúar geta haft mismunandi áherslur og boðskap.

Gúrúar lifa sjálfir eftir kenningum sínum og boðskap og stór hluti kennslunnar er því einfaldlega það að fara eftir eigin orðum. Eftirfarandi saga þykir fanga anda gúrúa sérstaklega vel. Kona ein átti son sem borðaði helst til mikið af sykri. Hún fór því til gúrus sonar síns og bað hann um að hjálpa sér að fá soninn til að hætta þessu sykuráti en gúrúinn bað hana um að koma aftur eftir eina viku. Móðirin gerði það, gúrúinn sagði piltinum að hætta að borða sykur og hann hlýddi því. Móðirin spurði þá gúrúinn hvers vegna þau hafi þurft að bíða í eina viku og gúrúinn svaraði því að fyrir viku síðan hafi hann sjálfur enn borðað sykur.