Matarvenjur

Gyðingdómur / Siðir / Matarvenjur

Sækja pdf-skjal

 

Ester Matarvenjur gyðinga eru mismunandi eftir því hvar þeir búa og hversu vel þeir hafa aðlagast því samfélagi sem þeir búa í. Almennt halda gyðingar þó í þá hefð að borða ekki svínakjöt og ekki er æskilegt að blanda saman mjólkurvörum og kjöti. Allt frá tímum Ísraelsmanna til forna hafa gyðingar lagt mikla áherslu á hreinlæti og meðferð matvæla. Það sem áður voru grundvallarreglur um hreinlæti hefur þróast yfir í trúarlegan hreinleika, það er að segja trúarreglur um hvað sé hreint og hvað sé óhreint.

Ein af grundvallarreglum þessum varðar neyslu og meðhöndlun matarins. Orðið kosher merkir að matvaran er rétt meðhöndluð miðað við trúarreglur. Hvað varðar kosher kjöt þá þarf að slátra dýrinu þannig að allt blóð leki úr því áður en það er matreitt því gyðingar líta svo á að blóðið gefi lífið sem Guð hefur helgað. Svínakjöt og skelfisk er bannað að borða, sennilega vegna þess að þessi dýr eru hræætur og smitast auðveldlega af því sem þau borða. Í seinni tíð hafa þó margir gyðingar slakað á þessum reglum eða aðlagað þær því samfélagi sem þeir búa í.

Matur tengist einnig ákveðnum hátíðum og er þá táknrænn fyrir ákveðna atburði í sögu gyðinga. Þetta á einkum við um páskahátíðina, þegar verið er að minnast frelsunar Ísraelsmanna undan Egyptum. Máltíðin nefnist seder. Borið er fram brauð, matzah, sem er flatt, þunnt og án gers. Það táknar það brauð sem Ísraelsmenn höfðu með sér þegar þeir fóru í skyndi frá Egyptalandi. Einnig er að finna á páskaborðinu lambalæri sem tákn um lambið sem fórnað var. Salat með hnetum og ávöxtum er tákn um múrsteinsvinnu Ísraelsmanna í Egyptalandi. Steinselju er dýft í salt vatn til að minnast þjáninga Ísraelsmanna á tímum kúgunar. Viðbótadiskur og bikar af víni er einnig sett á borðið fyrir spámanninn Elía sem tákn um þá von að hann snúi aftur til jarðarinnar og tilkynni komu Messíasar.