Hjónaband

Gyðingdómur / Siðir / Hjónaband

Sækja pdf-skjal

 

Ester Fyrir gyðinga hefur hjónabandið mikla þýðingu þó hjónavígslan sé með mismunandi hætti eftir löndum. Margir helgisiðir eru tengdir heimilislífinu og mikil rækt er lögð við fjölskyldulífið. Skilnaður er leyfilegur en ekki vel séður meðal gyðinga. Báðir aðilar geta sótt um skilnað en yfirleitt er reynt eins og hægt er að ná sáttum á milli hjóna með aðstoð ættingja eða rabbína.

Giftingar eru yfirleitt ekki framkvæmdar á Íslandi enda er sú athöfn framkvæmd af rabbína og þeir eru ekki starfandi hér. Verðandi hjón verða því að leita út fyrir landssteinana ef þau vilja láta gefa sig saman af rabbína.

Erlendis fara hjónavígslur oftast fram í sýnagógunni. Rabbíninn stjórnar athöfninni og les upp hjúskaparsáttmálann  sem er svo undirritaður þar á eftir. Hefð er fyrir að parið standi undir tjaldhimni á meðan þau setja upp hringana. Tjaldhiminninn á að tákna framtíðarheimili þeirra. Þegar karlmaðurinn er búinn að setja hringinn á fingur konunnar fer hann með loforð á hebresku. Rabbíninn blessar þau og svo þurfa þau að drekka vín úr sama glasinu til merkis um sameiginleg örlög þeirra í framtíðinni. Að því loknu tekur brúðguminn glasið og stígur á það svo það brotnar. Það er gert til að minnast þess að bæði góðir og slæmir tímar koma upp í hjónabandinu en einnig til að minnast eyðileggingar musterisins forna. Að athöfn lokinni er oft haldin mikil veisla fyrir ættingja og vini, þar sem er sungið og dansað langt fram á kvöld.