Eðlis- og stjörnufræði 1 - page 23

23
EÐLIS- OG STJÖRNUFRÆÐI
Aðdráttarkraftar og fráhrindikraftar
Við notum orðið
aðdráttarkraftur
þegar hlutir toga hver í annan en orðið
fráhrindikraftur
þegar hlutir ýta hver öðrum frá sér.
Sumir kraftar verka á milli hluta þannig að hlutirnir hafa tilhneigingu til
að dragast hvor að öðrum eða annar sveigir í átt til hins. Slíkir kraftar eru
nefndir aðdráttarkraftar. Einfaldasta dæmið um slíkt er þegar maður dregur
hlut í áttina til sín. Þyngdarkraftar eru alltaf aðdráttarkraftar og við þekkjum
vel að ef hlut er hent út í loftið þá leitar hann að lokum í átt til jarðar. Á
myndinni hér að framan sést hvernig vatnsbuna sveigir í átt að rafhlaðinni
greiðu. Við þær aðstæður verka rafkraftarnir sem aðdráttarkraftar. Það er hins
vegar ekki alltaf svo. Rafkraftar geta einnig verkað sem fráhrindikraftar.
Fráhrindikraftar milli hluta valda því að hlutirnir hafa tilhneigingu
til fjarlægjast eða sveigja hvor frá öðrum. Einfalt dæmi um þetta er þegar
maður ýtir einhverju frá sér. Rafkraftar og segulkraftar geta bæði verði
aðdráttarkraftar og fráhrindikraftar.
Meira um þyngdarkrafta
Við verðumöll áþreifanlega vör við áhrif þyngdarkrafta frá jörðinni en án þeirra
svifum við um í lausu lofti. Án þyngdarkrafta væri raunar ekkert andrúmsloft
í kringum jörðina. Við yfirborð tunglsins verka einnig þyngdarkraftar en þar
eru þeir mun minni vegna þess að tunglið hefur miklu minni massa en jörðin.
En það eru ekki bara jörðin og tunglið sem valda þyngdarkrafti. Allir
hlutir sem hafa massa dragast með aðdráttarkrafti að öllum öðrum hlutum
með massa. Því meiri sem massi hlutanna er þeim mun meiri verður
krafturinn. Þessa aðdráttarkrafta köllum við þyngdarkrafta. Þetta þýðir að
þyngdarkraftar verka á milli allra hluta í kringum okkur. Þessir kraftar eru
flestallir svo kraftlitlir að þeir hafa engin áhrif. Þyngdarkrafturinn á milli
tveggja manneskja sem mætast á gangstétt er svo lítill að hann hefur engin
áhrif á hreyfingu fólksins.
Jörðin er það eina sem hefur nægan massa til þess að valda þyngdarkrafti
sem við getum fundið fyrir. Það er þyngdarkrafturinn milli jarðarinnar og
annarra hluta sem veldur því að hlutir svífa ekki um í lausu lofti heldur detta;
þyngdarkraftar milli okkar og jarðar halda okkur við jörðina.
Aðdráttarkraftur verkar milli stráksins og
jarðarinnar. Þess vegna getur hann ekki svifið í
lausu lofti heldur mun væntanlega detta með
skvampi í vatnið.
umræðuefni
Nefndu dæmi um tilvik þegar þú hefur beitt annars vegar fráhrindi-
krafti og hins vegar aðdráttarkrafti.
1...,13,14,15,16,17,18,19,20,21,22 24,25,26,27,28,29,30,31,32,33,...43
Powered by FlippingBook