Kristni / Tákn og helgir dómar / Litir
 
Litir tengjast einnig kristinni trú. Mismunandi litir eru notaðir í klæðum presta, altarisklæðum og á predikunarstólnum í guðsþjónustum. Litirnir sýna ákveðin tímabil kirkjuársins og um leið sögu Jesú Krists. Lítið er þó talað um liti í Biblíunni en þeir hafa oft verið notaðir sem tákn í listaverkum tengdum kristinni trú.
Litir Guðs eru sagðir vera hvítur, blár og rauður. Fjólublár er einkennislitur aðventu og föstu. Hann er tákn iðrunar. Hvítur er einkennislitur jóladags, páskadags og uppstigningardags. Hann táknar heilagleika en einnig hreinleika, gleði, ljós og sakleysi. Svartur er einkennislitur föstudagsins langa. Hann er tákn sorgarinnar og dauðans. Rauður er einkennislitur hvítasunnunnar og þeirra daga þegar píslarvottanna er minnst. Hann er tákn heilags anda, kærleika, fórnar, elds og blóðs. Grænn er einkennis litur þeirra sunnudaga sem koma eftir þrettándann, þrenningarhátíðanna og svo út kirkjuárið. Hann er litur vonarinnar, vaxtar og þroska. Blár er einkennislitur himins og hafs. Hann er tákn sannleikans og trúfesti. Gylltur er litur geislabauga. Hann er tákn himins og eilífðar.