Aðrir helgir staðir

Kristni / Tákn og helgir dómar / Aðrir helgir staðir

Sækja pdf-skjal

 

Aðrir helgir staðir Margir þeir sem aðhyllast kristni heimsækja Ísrael til að upplifa með eigin augum þá staði sem sagt er frá í Biblíunni. Þessir staðir tengjast allir lífi og störfum Jesú Krists.

Betlehem í Júdeu er fæðingarborg Jesú en einnig tengist hún kristninni sem borg Davíðs konungs, eins og kemur fram í Gamla testamentinu. Árið 326 e.Kr. var reist kirkja á þeim stað sem menn töldu að fjárhúsið hafi verið sem Jesús fæddist í. Sú kirkja brann en var svo endurbyggð á 6.öld.

Nasaret er talin hafa verið heimabær Jesú, þar sem hann ólst upp. Nasaret var þá fámennt og lítið þorp. Þar hefur lítið varðveist af fornminjum frá tímum Jesú. Margir kristnir pílagrímar leggja leið sína til borgarinnar. Borgin liggur um 320 metrum yfir sjávarmáli í Norður-Palestínu og er í dag höfuðborg araba í Ísrael.

Galíleuhérað er það svæði sem Jesús fór hvað mest um í kennitíð sinni. Á dögum Jesú var þetta svæði litið hornaugum af gyðingum, það talið vanþróað og byggt heiðingjum. Gyðingar álitu því að það væri útilokað að Messías kæmi frá því svæði. Galíleuvatn kemur einnig fyrir í Biblíunni og segir meðal annars frá því að Jesús hafi oft verið við vatnið að kenna og predika. Galíleuvatn er stærsta ferskvatn í Ísrael og áin Jórdan rennur í gegnum það.

Kapernaum er borg í Galíleu sem talin er hafa verið miðstöð kennistarfs Jesú. Á þeim tíma var Kapernaum lítill en blómlegur verslunarstaður. Þeir sem áttu leið frá Damaskus í Sýrlandi og til strandarinnar með varning sinn fóru um borgina. Á fyrrihluta 20. aldar fundu fornleifafræðingar rústir af samkunduhúsi frá því á 4.öld e.Kr. og undir þeim stað annað sem talið er frá 1.öld e.Kr. Rétt fyrir utan Kapernaum er kirkja þar sem talið er að Símon Pétur hafi átt heima enda stendur borgin ekki langt frá Galíleuvatni.

Leið Jesú um Galíleu
Jesús fór gangandi á milli staða víða í Galíleu. Nú er búið að merkja þá leið sem menn telja að hann hafi farið. Leiðin er 65 km og upphaf hennar er við Nasaret. Það tekur um 4 daga að ganga hana ef miðað er við að gengnir séu um 13–19 km á dag.