Kirkja

Kristni / Tákn og helgir dómar / Kirkja

Sækja pdf-skjal

 

Kirkja Bænahús kristinna manna nefnist kirkja. Kirkja merkir þar sem kristnir menn koma saman eða hús drottins. Í augum kristinna manna er kirkjan heilagur staður þar sem fólk kemur saman til persónulegrar bænagerðar, guðþjónustu og annarra trúarlegra athafna.

Kirkjubyggingar geta verið ólíkar í útliti, allt frá einföldum, litlum kirkjum upp í stórar byggingar skreyttar með turnum, hvolfþökum, útskornum styttum og lituðum gluggum. Þessi mismunur fer eftir því hvaða kirkjudeildum þær þjóna eða á hvaða tíma þær eru byggðar. Það sama er að segja þegar komið er inn í kirkjur. Þar eru þær einnig mjög mismunandi mikið skreyttar. Nokkur atriði innan kirkjunnar hafa lítið breyst frá upphafi kristninnar og flestar kirkjur eiga það sameiginlegt að þar er að finna kór, altari, kirkjuskip, predikunarstól og á Vesturlöndum eru kirkjubekkir. Flestar miðaldakirkjur hafa inngang sem snýr í vestur og altari sem snýr í austur. Vesturáttin táknar sólsetur, myrkur og dauða en austuráttin sólarupprás, ljós og upprisu og því er altarið í austur og kirkjugestir snúa að altarinu á meðan á guðþjónustu stendur. Innsti hluti kirkjunnar nefnist kór og innan hans er altarið, kirkjuskipið og predikunarstóllinn. Altarið er helgasti staðurinn og yfirleitt í austurenda kirkjunnar eða í henni miðri. Altarið getur verið úr tré, marmara eða steini og er ýmist einfalt og látlaust eða mikið útskorið. Oft er það lokað öðrum en þeim sem eru prestlærðir og meðan á guðþjónustu stendur er presturinn við altarið eða í predikunarstólnum. Athygli allra sem inni í kirkjunni eru beinist að altarinu í guðþjónustunni.

Sumar kirkjur eru mikið skreyttar með helgimyndum, trúartáknum og lituðu gleri í gluggum. Helgimyndir eru sögur eða trúarlegir atburðir sem túlkaðir eru myndrænt og voru upphaflega fyrir þá sem ekki kunnu að lesa. Flestar þessara mynda sýna Guð, Jesú Krist, Maríu mey og dýrlinga en einnig atburði úr ritningunni og sögu kristninnar. Sumum kristnum mönnum ofbauð dýrkun helgimyndanna og vildu láta banna þær. Þeim fannst þær hafa sama tilgang og skurðgoðadýrkun sem bönnuð er samkvæmt boðorðunum í Biblíunni. Á 16.–17. öld var mótmælahreyfing sem gekk hart fram í þessu og því eru margar miðaldakirkjur í mótmælendalöndum Evrópu einfaldar og látlausar.

Kapella er lítið auka- eða bænahús en getur líka verið einkakirkja. Kapellur er að finna í stærri kirkjum en einnig er algengt að þær séu í ýmsum stofnunum eins og skólum, sjúkrahúsum, flugvöllum og svo í höllum konunga og aðals.

Innan hverrar kirkju starfar prestur og sér hann um að stýra guðþjónustunni. Sumstaðar líta menn á hann sem einskonar milligöngumann milli Guðs og safnaðarins. Presturinn sinnir einnig mörgu öðru en að stýra guðsþjónustum. Hans hlutverk er einnig að sinna fræðslu, sálgæslu og mörgu öðru í sínum söfnuði. Söfnuðurinn getur leitað til prestsins með margvísleg vandamál eða til að fræðast betur um kristna trú. Innan kirkjunnar starfa einnig meðhjálpari, kirkjuvörður, kór og orgelleikari.