Kristni / Tákn og helgir dómar / Tölur
 
Tölur koma oft fyrir í Biblíunni og eru því táknrænar fyrir kristna menn. Hér að neðan getið þið lesið ykkur til um nokkrar af þeim tölum sem taldar eru heilagar og hvers vegna.
Talan þrír táknar hina heilögu þrenningu sem er faðir, sonur og heilagur andi. Hin heilaga þrenning er líka tákn himinsins. Vitringarnir sem færðu nýfæddum Jesú gjafir voru þrír.
Sjö er sú tala sem kemur hvað oftast fyrir í Biblíunni. Hún er talin heilög tala óháð kirkjudeildum. Guð skapaði heimin og hvíldi sig á sjöunda degi. Bænin Faðir vor er sjö málsgreinar. Hún er einnig sett saman úr tölunum þremur og fjórum 3+4=7.
Aðrar tölur eins og 4, 9, 10 og 12 hafa einnig gildi fyrir kristna menn. Talan fjórir er sama tala og fjöldi guðspjallanna. Hún er einnig tákn jarðar þar sem hún myndar ferninginn og höfuðáttirnar eru fjórar: austur, vestur, norður, suður. Talan níu er þrisvar sinnum þrír. Jesús dó á níundu stundu auk þess er níu tala englanna, sannleikans og fullkomleikans. Boðorðin eru tíu. Talan tólf fæst ef margfaldað er saman þrjá og fjóra. Talan þrír táknar himin en talan fjórir jörð svo saman mynda þær tákn fyrir alheiminn. Lærisveinar Jesú voru tólf og ættkvíslir Ísraelsþjóðar einnig.