Kristni / Tákn og helgir dómar / Jerúsalem
Jerúsalem er mikilvæg borg í augum kristinna manna. Hennar er oft getið bæði í Gamla og Nýja testamentinu. Í fornkristni, á dögum Abrahams, nefndist borgin Salem. Davíð konungur hertók síðan borgina um árið 1000 f.Kr. Hann gerði hana að höfuðborg Ísraels og flutti sáttmálsörkina með lögmálstöflunum til hennar. Salómón konungur lét reisa fyrsta musterið í Jerúsalem og margir af áhrifaríkustu atburðum í lífi Jesú áttu sér einnig stað í þessari borg. Á tímum Jesú var Jerúsalem elsta borg Palestínu og var aðallega trúarleg og pólitísk höfuðborg en ekki verslunarborg eins og margar höfuðborgir á þessum tíma. Margir ferðamenn lögðu leið sína til borgarinnar á hátíðum gyðinga og því var mikið og blómlegt mannlíf í borginni. Kristnir pílagrímar fóru að leggja leið sína til Jerúsalem upp úr árinu 306 e.Kr. Þeir komu til að skoða Grafarkirkjuna sem þá var nýbyggð en einnig aðra merka staði sem sagt er frá í Biblíunni. Orðið Jerúsalem þýðir „bústaður friðarins“. Jerúsalem, El-Quds á arabísku, er í dag höfuðborg Ísraels og árið 2009 var íbúafjöldi hennar um 780.000. Borgin stendur á hásléttu Júdeu í um 800 m hæð.
Borgin hefur mikið trúarlegt gildi ekki bara fyrir kristna menn heldur einnig gyðinga og múslima. Í margar aldir hafa gyðingar og múslimar barist um stjórn borgarinnar og á tímabili var hún undir stjórn Englendinga. Það má því segja að í „bústaði friðarins“ mætist eingyðistrúarbrögðin en því miður hefur ekki enn náðst almennilegur friður um stjórn og yfirráð yfir borginni. Árlega koma til Jerúsalem margir ferðamenn og pílagrímar, gyðingar, kristnir og múslimar.
Kristnir pílagrímar heimsækja einnig staði í og við Jerúsalem. Olíufjall er austur af borginni, í um 818 m hæð, en þar flutti Jesús fjallræðuna um sæluboðin. Via Dolorosa er gatan sem talin er vera sú leið sem Jesús gekk með krossinn upp á Golgata. Golgatahæðin eða Hauskúpuhæð er talinn vera sá staður þar sem Jesús var krossfestur.