Frá Mekku til Medínu

Íslam / Forsaga íslams / Frá Mekka til Medínu

Sækja pdf-skjal

 

Hellirinn Múhameð bjó í borginni Mekka á Arabíuskaganum. Hann kenndi fólki hvernig það ætti að fylgja orðum Guðs og gerast múslimar. Fyrst kenndi hann eingöngu fjölskyldu sinni og vinum en hins vegar komu margir til þess að hlusta á hann. Margir ákváðu að fylgja honum og gerast múslimar. Það líkaði ekki öllum vel því ríkir valdamenn í Mekka voru hræddir um að missa völd sín ef fólkið færi að fylgja Guði Múhameðs. Þeir reyndu að koma illu orði á Múhameð til að fólkið hætti að hlusta á hann en hann lét það ekki á sig fá.

Árið 619 varð Múhameð erfitt ár því þá lést konan hans og stuttu seinna frændi hans, Abu Talib, sem hafði alið hann upp. Auk þess héldu hinir ríku valdamenn áfram að þjarma að Múhameð. Guð sagði honum að halda til borgarinnar Medínu ásamt fylgdarliði sínu því þar mundi verða vel tekið á móti þeim. Hinir ríku valdamenn voru ákveðnir í að losa sig við Múhameð í eitt skipti fyrir öll. Þeir lögðu á ráðin um að drepa hann snemma morguns þegar hann yfirgæfi hús sitt til þess að biðjast fyrir. Engillinn Gabríel heyrði ráðabruggið og birtist Múhameð í svefni til að vara hann við. Múhameð og vinur hans Abu Bakr flúðu út í eyðimörkina í átt til Medínu. Þegar hinir ríku valdamenn komust að því að þeir höfðu flúið urðu þeir mjög reiðir. Þeir hófu eftirför og hétu þeim fundarlaunum sem næðu þeim.

Múhameð og Abu Bakr reyndu að leika á óvini sína með því að halda í suður en ekki í norður en það dugði ekki til því þeir fundu slóð þeirra. Múhameð og Abu Bakr ferðuðust um eyðimörkina á nóttunni. Þegar sólin kom upp fundu þeir helli til að fela sig í. En óvinir þeirra voru rétt á eftir þeim. Múhameð var viss um að Guð myndi vernda þá og því ákvað hann að þeir skyldu fela sig í hellinum. Þegar óvinirnir komu að hellinum stuttu seinna voru þeir hins vegar alveg vissir um að enginn væri þar inni því könguló hafði ofið vef fyrir opið og dúfa sat þar á hreiðri sínu. Þeir héldu því áfram leiðar sinnar.

Þegar Abu Bakr var viss um að þeir væru farnir sneri hann sér að Múhameð og spurði hann hvaðan vefurinn og dúfan hefðu eiginlega komið því hvorugt hefði verið þar þegar þeir fóru inn í hellinn. Múhameð brosti til hans því hann vissi að Guð hafði verið með þeim. Nokkrum dögum seinna yfirgáfu þeir hellinn og héldu til Medína þar sem vel var tekið á móti þeim.

Flótti Múhameðs, sem var árið 622 e.Kr., er talinn marka upphaf að stofnun hins íslamska trúarsamfélags umma og er því upphaf tímatals múslima.