Nótt ferðalagsins

Íslam / Forsaga íslams / Nótt ferðalagsins

Sækja pdf-skjal

 

Engill Nótt eina þegar Múhameð var sofandi kom engillinn Gabríel, vakti hann og fór með hann í ferðalag. Gabríel leiddi Múhameð að hliði hinnar heilögu mosku í Mekka en þar beið hans stórkostleg kynjaskepna. Hún var hvít eins og snjór með útlit hests og tvo stóra vængi á bakinu. Gabríel lyfti Múhameð á bak skepnunnar og saman flugu þeir til Jerúsalem.

Á Musterishæðinni hitti Múhameð Abraham, Móse, Jesús og aðra spámenn sem höfðu verið á undan honum sjálfum. Gabríel færði Múhameð tvo bikara. Annan með víni en hinn með mjólk. Múhameð tók bikarinn með mjólkinni og drakk úr honum en snerti ekki vínið. Þetta líkaði Gabríel vel og bað hann að kenna þjóð sinni að gera eins, þess vegna er múslimum bannað að drekka vín.

Gabríel sýndi Múhameð stiga sem gerður var úr gulli og silfri og sagði honum að klifra upp. Saman klifruðu þeir að himnahliðinu þar sem tólf þúsund englar stóðu og gættu þess. Einn englanna spurði Gabríel hvort þetta væri hinn sanni spámaður og Gabríel svaraði því játandi. Þeir héldu inn um hliðið og í gegnum hina sjö himna. Í hverjum himni hittu þeir fyrir þá spámenn sem höfðu verið á undan Múhameð og allir spurðu þeir hver þessi maður væri. Gabríel svaraði alltaf: Múhameð spámaður.

Að lokum komust þeir í hinn sjöunda himin og Múhameð steig inn í paradís og stóð frammi fyrir hásæti Guðs. Guð sagði við Múhameð að múslimar ættu að biðja fimmtíu sinnum á degi hverjum. Á leið sinni til baka hitti Múhameð Móse sem spurði hann hversu oft hann ætti að biðja. Fimmtíu sinnum svaraði Múhameð. Þá sagði Móse: Bænir eru þungar byrgðar að bera og mannfólkið er veiklynt. Farðu aftur til Guðs og biddu hann um að hafa bænirnar færri. Múhameð gerði það og fékk þeim fækkað um tíu. Hann kom aftur að máli við Móse sem sagði honum að hann yrði að fækka þeim meira. Nokkrum sinnum sneri Múhameð við til að fá bænunum fækkað og að lokum voru eingöngu fimm eftir. Múhameð vildi ekki biðja Guð að fækka bænunum meira.

Hver sá sem mundi fara fimm sinnum með bænir á hverjum degi mundi uppskera eins og þær væru fimmtíu. Uppfrá þessu hefur múslimum verið skylt að fara með bænir fimm sinnum á dag.  

Í dögun steig Múhameð á bak skepnunnar og hélt aftur til Mekka.