Grunnþættir menntunar
        
        
          35
        
        
          Jafnrétti
        
        
          Jafnrétti er óhugsandi án þróunar til sjálfbærni og breytts efnahagskerfis. Markmið
        
        
          sjálfbærrar þróunar er jafnrétti kynslóðanna en án sjálfbærni gengur núlifandi
        
        
          kynslóð freklega á rétt komandi kynslóða til lífs og heilbrigðis. En sjálfbærni
        
        
          næst heldur ekki nema jafnrétti ríki, ekki síst jafnrétti kynja. Ósjálfbærir lífshættir
        
        
          okkar, og það efnahagskerfi sem við búum við, gerir sífellt fleira fólk fátækt og
        
        
          venjulega er það svo að þar sem fátækt ríkir bitnar hún mest á konum og börnum.
        
        
          Umhverfisvandinn, svo sem hlýnun loftslags, bitnar ekki síst á fátækum konum í
        
        
          þróunarlöndum. Þeirra er að safna eldiviði og sækja vatn og þær þurfa sífellt að
        
        
          fara lengra frá heimili sínu til að finna slíkar nauðþurftir.
        
        
          Almennt hafa konur minni tækifæri en karlar til að taka þátt og vera með þar
        
        
          sem afdrifaríkustu ákvarðanir samfélagsins eru teknar. Oftast er það hlutskipti
        
        
          þeirra að vinna þau mikilvægu störf sem standa utan hagkerfisins, rétt eins og
        
        
          gjafir og þjónusta náttúrunnar. Þær annast heimili, börn og aldraða og nánasta
        
        
          umhverfi fjölskyldunnar.
        
        
          Konur eru helmingur mannkyns, með dýrmæta reynslu og þekkingu sem
        
        
          nýtast vel við úrlausn ýmissa verkefna. Hefðu konur jafnan aðgang að völdum og
        
        
          tækifærum og karlar má búast við að þær beindu fjármagni til fólks og samfélags
        
        
          í því skyni að draga úr fátækt, bæta umhverfi og auka menntun öllum til góðs.
        
        
          En milljónir kvenna ráða varla yfir eigin líkama. Fólki á Jörðinni fjölgar stöðugt
        
        
          með síauknu álagi á auðlindir, náttúru og umhverfi en engu að síður banna sum
        
        
          trúarbrögð konum að nota virkar getnaðarvarnir til að takmarka barneignir sínar.
        
        
          Heilbrigði og velferð
        
        
          Við erum sett saman úr náttúruefnum, hverju öðru? Menn lifa ekki án nærandi
        
        
          fæðu nema í örfáar vikur, ekki án vatns nema í örfáa daga og ekki án súrefnis
        
        
          nema í örfá andartök. Grunnforsenda heilsu okkar er að við búum í heilbrigðu
        
        
          umhverfi með fjölbreyttu lífríki þar sem er hreint loft, vatn og næring.
        
        
          Þetta er svo augljóst og sjálfsagt að það tekur því varla að nefna það. En samt
        
        
          gleymum við þessu oft, hugsum ekki út í það. Með lifnaðarháttum okkar og neyslu
        
        
          mengum við umhverfi okkar, röskum lofthjúpi Jarðar, skiljum eftir gerviefni sem