Eðlis- og stjörnufræði 1 - page 11

11
EÐLIS- OG STJÖRNUFRÆÐI
Vísindamolar
Flest hús á Íslandi eru hituð með jarðhita. Sums staðar er heitu
vatni dælt upp úr jörðinni en annars staðar er heit jarðgufa látin
hita kalt vatn og það notað til upphitunar. Eðlisfræðin að baki
jarðhitanum er mjög sniðug: Á jarðhitasvæðum er jörðin heitari
en annars staðar. Með því að bora eftir heitu vatni eða gufu þá
getum við flutt varmaorku úr jörðinni upp á yfirborðið þar sem
við getum nýtt orkuna. Síðan er heitt vatn flutt inn í hús þar sem
það lætur frá sér varmaorku og kólnar og hitar upp húsin.
Hluti af heita vatninu sem er notað til að hita upp hús í
Reykjavík kemur úr borholum í Laugardalnum og nágrenni.
Fyrir ofan borholurnar eru lítil hús umhverfis dælurnar sem
dæla upp vatninu. Borholurnar sjálfar eru mörg hundruð metrar
að dýpt og sú dýpsta nær þrjá kílómetra ofan í jörðina sem er
meira en þrjú fjöll á stærð við Esjuna! Reynt er að hafa nýtinguna
sjálfbæra og dæla ekki of miklu magni af vatni eða gufu upp úr
jörðinni. Þannig gefur svæðið stöðugt frá sér sömu varmaorku og
hún minnkar ekki með tímanum.
Borhola í Reykjavík.
Vissir þú að
… hávaðinn á rokktónleikum getur náð 120 desibelum sem er mjög nálægt
sársaukamörkum.
… kraftur sem kallast þyngdarkraftur heldur tunglinu á braut um jörðina.
… læknar geta breytt lögun hornhimnu í auga einstaklings sem er nærsýnn með
sérstakri leysitækni og lagað nærsýnina.
… þegar við hitum mat í örbylgjuofni erum við fyrst og fremst að snögghita vatnið
í matnum.
… hægt er að setja örlítið raftæki, gangráð, í fólk sem þjáist af óreglulegum hjart-
slætti þannig að það getur lifað eðlilegu lífi. Raftækið tryggir eðlilegan hjartslátt.
Fundyflói á fjöru.
Breytingarnar á hæð sjávar á milli flóðs og fjöru nefnast
sjávarföll. Mesti munur á flóði og fjöru er við Fundyflóa
í Kanada. Þar getur hæð yfirborðs sjávar sveiflast um
allt að 17 metra en sveiflan getur mest orðið um 4
metrar við Ísland. Aðdráttarkraftar frá tungli og sólu
hafa áhrif á sjávarföllin. Mestur munur er á milli flóðs
og fjöru dagana eftir fullt tungl og nýtt tungl.
1...,2,3,4,5,6,7,8,9,10 12,13,14,15,16,17,18,19,20,21,...43
Powered by FlippingBook