Eðlis- og stjörnufræði 1 - page 3

3
EÐLIS- OG STJÖRNUFRÆÐI
Um eðlisfræði og stjörnufræði
Stundum spyrja nemendur: „Af hverju erum við að læra eðlisfræði?“
Það er erfitt að svara þessari spurningu af því að svörin eru mörg og
mismunandi. Það er alveg hægt að lifa góðu lífi án þess að kunna nokkuð
í eðlisfræði og það sama á við um margt annað sem er kennt í skólum.
Það að kunna eðlisfræði getur samt hjálpað manni að fá gott starf. Mörg
störf sem tengjast vísindum og tækni krefjast kunnáttu í eðlisfræði.
Hvort sem fólk vinnur við að spá fyrir um veðrið eða að smíða gervifætur
þá er nauðsynlegt að kunna eðlisfræði.
Eðlisfræðikunnátta hjálpar manni að skilja mjög margt. Eðlisfræðin
útskýrir af hverju sólarlagið er rautt, himinninn blár og regnboginn í
öllum sínum litum. Eðlisfræðin útskýrir af hverju það er heitara íMoskvu
en í Reykjavík á sumrin en kaldara í Moskvu á veturna. Eðlisfræðin
útskýrir líka ýmislegt sem manni dettur ekki einu sinni í hug að velta
fyrir sér, til dæmis af hverju við svífum ekki um í lausu lofti og af hverju
ekki er hægt að ganga í gegnum steinsteypta veggi.
Eðlisfræðin er mikilvæg fyrir mannkynið og hún hefur verið nýtt
bæði til góðs og ills, til dæmis bæði til að smíða vopn og lækningartæki.
Í seinni heimstyrjöldinni stakk frægasti eðlisfræðingur heims, Albert
Einstein, upp á því að búin yrðu til kjarnorkuvopn til að nota í
stríðinu við Þýskaland nasismans. Eftir stríðið vildi Einstein að öllum
kjarnorkuvopnum yrði eytt vegna þess að mannkyninu stafaði hætta af
þeim.
Þó að eðlisfræðiþekking hafi verið notuð til ills þá eru góðu áhrifin
meiri.Í lækningumerunotuð segulómunartæki og teknar röntgenmyndir
til að sjá inn í fólk til að geta læknað það. Í sumum skurðaðgerðum eru
notaðir ljósleiðarar þannig að hægt er að gera aðgerðirnar í gegnum lítil
göt í stað stórra skurða og er þá sjúklingurinn mun fljótari að jafna sig
eftir aðgerðina. Öll tæki sem við notum byggjast á eðlisfræði. Þetta á t.d.
við um farsíma, tölvur og sjónvörp. Við hitum flest hús á Íslandi upp
með heitu vatni, hljóðbylgjur eru notaðar til að leita að fiski í hafinu og
rafmagn hefur bætt líf fólks um allan heim. Eðlisfræðiþekking hefur gert
mannkyninu kleift að senda fólk til tunglsins og ná því heilu til baka.
Eðlisfræði er hluti af menningarlegu umhverfi nútímafólks. Hún er
undirstaða heimsmyndar raunvísinda og skilnings okkar á heiminum.
Eðlisfræði og stjörnufræði leggja grundvöllinn að skilningi mannkynsins
á því hvernig alheimurinn varð til, hvernig jörðin varð til og hvernig að-
stæður mynduðust fyrir kviknun lífs á jörðinni.
1.1
1,2 4,5,6,7,8,9,10,11,12,13,...43
Powered by FlippingBook