Fyrsta opinberun Múhameðs

Íslam / Forsaga íslams / Fyrsta opinberun Múhameðs

Sækja pdf-skjal

 

Engill Þó að Múhameð væri hamingjusamur og vel efnaður verslunarmaður í Mekku þá var hann mjög leitandi. Hann sá græðgina og ofbeldið sem var ríkjandi og þá helst í garð þeirra sem minna máttu sín. Smá saman dró Múhameð sig meira og meira í hlé. Hann fór að venja komu sína í helli rétt fyrir utan Mekku þar sem hann sat og hugleiddi hvernig hann gæti farið að því að bæta ástandið í samfélaginu. Stundum fannst honum hann heyra raddir en hann sá aldrei neinn.

Þegar Múhameð var um fertugt sagði hann frá atburði sem átti eftir að breyta allri mannkynssögunni. Múhameð sagði að hann hefði verið í hellinum eins og svo oft áður en í þetta sinn fyllti bjarmi hellinn og skuggi af engli birtist fyrir framan hann og rétti honum léreft sem skrifað var á og sagði honum að lesa. Múhameð var ekki læs svo hann sagði englinum að hann gæti ekki lesið. Tvisvar rétti engillinn honum léreftið og sagði honum að lesa. Skyndilega skildi Múhameð það sem þar stóð skrifað. En hann varð hræddur og hljóp út úr hellinum. Að baki sér heyrði hann kallað á sig og hann snéri sér við. Engillinn kallaði til hans og sagði: „Múhameð ekki vera hræddur. Þú ert sendiboði Guðs og ég er engillinn Gabríel“. Múhameð hljóp heim til sín skjálfandi af hræðslu.

Uppfrá þessu breyttist líf Múhameðs því múslimar líta svo á að þarna hafi Guð gert hann að spámanni sínum. Fyrstu þrjú árin sagði hann eingöngu fjölskyldu sinni og nánustu vinum frá opinberununum en eftir það hóf hann að predika orð Guðs opinberlega. Predikunum hans var þó ekki alls staðar vel tekið. Enda voru þær í andstöðu við ríkjandi trúarbrögð og pólitíska peningastefnu í þjóðfélaginu. En Múhameð þjónaði Guði og fræddi fólkið um það hvernig það ætti að lifa samkvæmt vilja Guðs.

Samkvæmt sögunni birtist Gabríel Múhameð mörgum sinnum með skilaboð frá Guði sem Múhameð endursagði vinum sínum. Múhameð var hvorki læs né skrifandi en sumir vinir hans skrifuðu niður það sem hann sagði til að varðveita skilaboðin. Seinna var þessum skilaboðum safnað saman í eina bók sem nefnist Kóraninn.

Nóttin sem Múhameð fékk fyrstu opinberun sína nefnist nótt máttarins og er haldin hátíðleg á 27. degi hitamánaðar (ramadhan). Hægt er að lesa meira um nótt máttarins í kaflanum: Hátíðir > Ramadhan og föstuendahátíðin.