Fæðing Múhameðs spámanns

Íslam / Forsaga íslams / Fæðing Múhameðs spámanns

Sækja pdf-skjal

 

ArabíuskagiFyrir langa löngu voru hirðingjar sem reikuðu um eyðimörkina með kvikfénað sinn og stunduðu verslun og viðskipti. Landið sem þeir bjuggu í var hrjáð af miklum þurrkum og þar var lítill gróður. Hirðingjarnir skiptust í ættbálka og áttu í miklum útistöðum sín á milli. Staða fólksins fór eftir því hversu ætt þeirra var rík eða göfug. Samfélagið á þessum tíma einkenndist af græðgi og illdeilum auk þess sem fólkið tilbað marga guði og ýmis líkneski.

Í þessu landi bjó ung kona, Amina og maður hennar Abdullah. Amina varð barnshafandi og nokkrum dögum fyrir fæðingu barnsins birtist henni engill í draumi. Hann sagði henni að hún mundi eignast son sem yrði góður og mikill maður. Hann sagði henni einnig að hún yrði móðir síðasta spámanns Guðs og hann mundi bjarga heiminum. Engillinn sagði henni að drengurinn ætti að heita Múhameð.

Múhameð ibn Abdallah fæddist 570 árum e.Kr. í borginni Mekka á Arabíuskaganum. Sagan segir að við fæðingu Múhameðs hafi gerst margir skrítnir og undursamlegir atburðir. Gróðurinn blómstraði sem aldrei fyrr og greinarnar svignuðuð undan blómum sínum og ávöxtum. Stjörnurnar á himninum skinu skært og allur heimurinn lýstist upp. Múhameð kom í heiminn í dögun þegar tunglið var fullt.

Þegar Múhameð var ennþá barn varð hann munaðarlaus því faðir hans hafði látist stuttu eftir fæðingu sonarins og síðar veiktist móðir hans og lést einnig. Það var um það leyti sem Múhameð var sex ára gamall. Hann bjó fyrst um sinn hjá afa sínum en frændi hans, Abu Talib, tók hann síðan að sér og annaðist hann eins og hann væri hans eigin sonur. Þrátt fyrir að Múhameð væri alin upp í fátækt var hann umkringdur umhyggjusömu og hjartahlýju fólki og Abu Talib vissi að Múhameð var enginn venjulegur drengur.

Múhameð óx úr grasi, varð góður maður, vinnusamur og gekk aldrei á bak orða sinna. Hann fékk vinnu hjá ríkri ekkju sem hét Khadija og var nokkrum árum eldri en Múhameð. Múhameð og Khadija urðu ástfangin og giftu sig. Múhameð tókst að koma vel undir sig fótunum og var hamingjusamur maður.