Íslam / Hátíðir / Ramadan og föstuendahátíðin
 
Samkvæmt stoðunum fimm eru múslimar skyldugir til að taka þátt í árlegri föstu sem fer fram í 9. mánuði íslamska tímatalsins, ramadanmánuði eða hitamánuði.
Á þessum tíma fasta múslimar frá sólarupprás til sólarlags og mega ekki borða, drekka eða stunda kynlíf. Með föstunni þjálfast menn til dæmis í þolinmæði, viljastyrk og samkennd auk þess sem þeir sem neyta ekki matar vita betur hvernig þeim þurfandi líður. Hins vegar er ungum börnum, barnshafandi konum og öldruðum ekki skylt að fasta og það sama á við þá sem eru veikir eða heilsutæpir. Á hverju kvöldi er fastan brotin með sérstakri athöfn þar sem borðaðar eru döðlur og drukkið vatn.
27. dag ramadan er nótt máttarins sem er hápunktur föstunnar en talið er að Múhameð hafi fengið sína fyrstu opinberun á nóttu máttarins. Þessi nótt á að vera mjög öflug og til eru sögur sem segja að henni fylgi töfrakraftur og þá sé hægt að heyra grasið vaxa og trén tala.
Hægt er að lesa meira um fyrstu opinberun Múhameðs í kaflanum: Forsaga íslams > Fyrsta opinberun Múhameðs.
Til minningar um opinberun Múhameðs og til að fagna því að fastan er búin halda múslimar upp á föstuendahátíðna eða Eid al-Fitr. Föstuendahátíðin er næst stærsta hátíð múslima og stendur í þrjá daga. Hátíðin einkennist af samveru ættingja og vina. Hún hefst á sameiginlegri bænastund þar sem farið er með bænir við sólarupprás. Þá er hefð fyrir því að fjölskyldan borði saman og taki á móti gestum. Hringt er í fjarstadda ættingja og þeim óskað til hamingju með daginn. Einnig senda margir Eid-kort með heillaóskum og heimsækja grafir látinna ættingja.
Í ramadan og á föstuendahátíðinni ber múslimum að huga að þeim sem minna mega sín. Það er því siður að þeir sem eru aflögufærir gefi eitthvað til fátækra á þessum tíma.