Gyðingdómur / Forsaga gyðingdóms / Endurvígsla mustersins
Þó svo að margir Ísraelsmenn hafi snúið til baka úr útlegð sinni frá Babýlon þá urðu þeir ekki sjálfstæð þjóð heldur voru sífellt undir yfirráðum einhverra stjórþjóða og árið 198 f. Kr. náðu Sýrlendingar völdum í Júdeu og Jerúsalem. Til að byrja með lagði Antíokkus III konungur Sýrlendinga lága skatta á gyðingana, hjálpaði þeim að byggja upp musteri sitt og gerði margt annað til að þeir gætu iðkað sína eigin trú og unnið störf sín óáreittir. Gyðingdómur og hin hellenska menning Sýrlendinga þrifust því í friði hlið við hlið.
Vegna erfiðs stríðs við Rómverja var hins vegar farið að halla verulega undan fæti hjá Antíokkusi III þegar hann lést. Eftir að sonur hans Antíokkus IV tók við völdum fór að bera á aukinni spennu milli Sýrlendinga og gyðinga í landinu, en hann vildi reyndi að láta gyðinga tilbiðja grísku guðina í musterum sínum. Eftir að gyðingar reyndu að gera uppreisn gegn Sýrlendingum sendi Antíokkus IV hermenn sína inn í musterið í Jerúsalem. Þar myrtu þeir fólk, skemmdu musterið, stálu dýrgripum og slökktu á olíuljósunum sem loga eiga dag og nótt sem tákn um nærveru Guðs.
Í framhaldi af þessu kom Antíokkus IV á ströngum lögum sem bönnuðu marga siði gyðinga t.d. umskurð, að halda hvíldardaginn heilagan og lestur Lögmálsins. Auk þess opnaði hann musterið í Jerúsalem fyrir allri þjóðinni og kom þar fyrir altari til heiðurs grísku guðunum. Þegar neyða átti gyðinga til að fórna svíni í musterinu fengu þeir meira en nóg. Gyðingar litu svo á að svín væru óhrein dýr og vildu alls ekki fórna þeim í Guðshúsi sínu. Árið 167 f. Kr. flúði hópur gyðinga, undir forystu Júdasar Makkabeus til fjallanna, þar sem þeir földu sig, söfnuðu liði og hófu uppreisn og skæruhernað gegn Sýrlendingum. Her gyðinga var miklu minni en her konungsins en þeir trúðu því að Guð mundi vernda þá í baráttunni. Þetta gekk eftir og árið 142. f. Kr. tókst þeim að vinna Jerúsalem aftur á sitt vald og eftir meira en 500 ára ósjálfstæði voru Gyðingar nú aftur sjálfstæð þjóð. Uppreisn þessi sem hefur verið nefnd Makkabeusar uppreisnin í höfuðið á Júdasi Makkabeus.
Þegar gyðingar náðu Jerúsalem aftur og þar með musterinu var það fyrsta sem þeir gerðu að endurvígja musterið og kveikja olíuljósin aftur. Það var hins vegar ekki olía nema til eins dags og þeir vissu að það tæki átta daga að útvega meiri olíu. Samt var ákveðið að kveikja á lampanum og það ótrúlega gerðist að olían dugði þessa átta daga.
Endurvígslu musterisins og kraftaverksins með olíuljósin er minnst á ljósahátíðinni (hanukkah) sem stendur í 8 daga. Hægt er að lesa nánar um ljósahátíðina í kaflanum: Hátíðir > Ljósahátíð.