Sagan af Ester

Gyðingdómur / Forsaga gyðingdóms / Sagan af Ester

Sækja pdf-skjal

 

Ester Um það bil 586 f.Kr. voru Ísraelsmenn neyddir til að fara í útlegð til Babýlon. Persar lögðu svo undir sig ríki Babýloníumanna árið 539 f.Kr en þeir afléttu útlegð Ísraelsmanna og margir þeirra sneru aftur til Ísraels.  Hins vegar var ákveðinn hópur sem hélt áfram að búa fyrir utan Ísraelsríki og nefndust þau samfélög einu nafni, diaspora eða hinir sundruðu.

Í frásögninni af Ester er einmitt verið að fjalla um hóp gyðinga sem hélt áfram að búa undir stjórn Persa. Konungur þeirra hét Ahasverusa og drottning hans hét Vastí. Hún neitaði að hlýða boði hans og var því rekin úr höllinni. Konungur þurfti nú að velja sér nýja konu og því voru allar ungar og fríðar konur í ríkinu leiddar fyrir hann. Ein af þessum konum var Ester en hún var mjög falleg og góð ung kona af ætt Ísraelsmanna. Hún var alin upp hjá frænda sínum, Mordekai, því foreldrar hennar voru látnir.

Þegar Ester var send í konungshöllina bað frændi hennar hana um að segja ekki frá því að hún væri af ætt Ísraelsmanna en hann ætlaði að koma á hverjum degi og athuga hvernig heni liði. Konungur varð mjög ástfanginn um leið og hann sá Ester og gerði hana að drottningu sinni.

Mordekai kom á hverjum degi til að vitja Esterar og dag einn komst hann að ráðabruggi tveggja manna um að ráðast á konunginn. Hann sagði Ester frá því og hún kom boðum til konungsins að hverju Moredkai hefði komist. Við frekari rannsókn kom í ljós að þetta var satt og lét konungur rita þetta í árbókina sína.

Einn af aðstoðarmönnum konungs, maður að nafni Haman, var nú gerður að miklum aðalsmann. Haman vildi að menn hneigðu sig þegar þeir mættu honum. En Haman tók eftir því að Mordekai hneigði sig ekki fyrir honum og varð hann mjög reiður. Þegar hann komst að því að Mordekai var Ísraelsmaður og hneigði sig aðeins fyrir Guði sínum fyrirskipaði hann að láta drepa alla Ísraelsmenn. Hann fór til konungs til að fá leyfi hans til að drepa þá alla en sagði konungnum ekki frá því hvers vegna hann vildi það. Þegar Mordekai frétti af ráðabruggi Hamans sagði hann Ester frá því og bað hana að tala við konung. Í ríkinu voru hinsvegar lög um að enginn mætti koma óboðinn á fund konungs, ekki einu sinni drottningin. Sá sem braut þessi lög var dæmdur til dauða. Ester var því ekki viss um hvernig hún átti að fara að þessu en að lokum ákvað hún að fara á fund konungs og láta ráðast hvort hún yrði dæmd til dauða eða ekki.

Ester fastaði í þrjá daga og klæddi sig síðan í klæðnað drottningar, gekk til hallarinnar og beið fyrir utan dyrnar. Konungurinn sat fyrir innan og þegar hann sá hana bauð hann henni að koma inn og spurði hvers hún óskaði. Hún sagði honum að hún vildi að hann og Haman kæmu í veislu til sín seinna um daginn. Konungur og Haman gerðu það og konungur spurði þá aftur hvers hún óskaði. Hún sagði honum þá að hún óskaði þess að fá að halda lífi og að þjóð hennar fengi að halda lífi því hún væri af ætt Ísraelsmanna. Hún minnti hann einnig á að Mordekai hefði bjargað lífi hans. Konungur sá nú að Haman hafði blekkt hann og lét því hengja hann. Mordekai fékk hins vegar virðingastöðu hjá konunginum og lífi Ísraelsmanna var þyrmt.